14 október 2008

Íbúð

"Ég" fékk íbúðina afhenta í gær. Mamma og pabbi hringdu í mig seinni partinn í gær og sögðu mér að þau væru búin að taka við íbúðinni. Pabbi tók nokkrar myndi fyrir mig, læt þær fylgja hér:Annars er nóg að gera í skólanum. Á að skila 3 verkefnum í 2 kúrsum áður en ég fer heim. Eitt verkefnið var aðeins stærra en ég bjóst við svo getur verið að ég fái að skila einu aðeins seinna inn þar sem að kennarinn minn hefur skilning fyrir því að ég gat ekki lært mikið í sambandi við jarðarförina.

Annars er það allt búið í bili, eða í biðstöðu eins og er. Ættingjarnir þrufa að fá eitthvað til að skrifa undir til að samþykkja erfðarskrána. Biðin eftir arfinum gæti tekið allt að 6 mánuði. Stundum pæli ég í því hvað þetta hefði verið mikið vesen ef ég hefði ekki verið hérna úti. Alltaf gott að geta hjálpað til.

Í sambandi við þetta fjármálavesen heima þá finn ég alveg hvað ég hugsa um að spara eins mikið og ég bara get. Hef til dæmis bara keypt matvörur(sparlega samt) og lestarmiða, þar sem að ég þarf jú að fara til Lundar reglulega. Það er alveg hægt að spara ef maður vill ;)

10 október 2008

Allt á niðurleið

Ég veit ekki hvort maður eigi að ræða þetta ástand eitthvað. En eitt er ljóst að þetta tekur á, og þá sérstaklega andlega. Ég lifi af til næstu mánaðarmóta, en þegar sú leiga er greidd þá er lítið eftir. Svo ég ætla að vona að þeir reddi málunum sem fyrst.

Mamma fór í gær. Ég hitti hana niðri í Köben þar sem ég var í Lundi á fimmtudag og föstudag. Fór í smá heimsókn til Karólar, gisti hjá henni á föstudeginum. Við mamma spókuðum okkur svo í Köben, ekki mikið verslað enda allt með sérstöku íslendingaálagi. Svo kom Ingibjörg frænka mín og dóttir hennar á sunnudaginn. Við fjórar tókum svo lestina til Gbg.

Á mánudeginum byrjaði íslenski presturinn að koma til okkar og ræða við okkur í sambandi við jarðaförina sem var daginn eftir. Síðan fórum við að tala við útfarastofuna og fara í gegnum pappíra og því um líkt. Á þriðjudaginn var svo jarðaförin sem heppnaðist bara mjög vel. Íslenski kórinn kom og söng. Þetta var ekki fjölsótt athöfn enda ekki búist við því. En við vorum bara mjög sáttar við hana.
Á miðvikudaginn þurftum við svo að tala aftur við útfarastofuna og svo við fjölskyldulögfræðing útaf erfðarmálum. Og við sóttum öskuna sem flytja átti heim, að ósk frænda míns.
Þar sem mamma er ekkert sérstaklega sleip í sænskunni þá þýddi það að ég þurfti að túlka alla fundi, eða þýða aðal efnið. Og þá varð ég að skilja svo mín þurfti að biðja um auka útskýringar, en ég er vön að jánka bara þótt ég skilji ekki alveg, það virkaði ekki núna :P En ég er ekki frá því að hafa lært nokkur ný sænsk orð.

En mamma fór svo aftur í gær og ég fór aftur í skólann. Var að deyja úr þreytu allan daginn, það tekur á að hitta svona mikið af fólki og muna allt sem maður þarf að gera. Fyrir utan að þurfa að túlka og einbeita sér á að skilja.

Ég reyni að vinna eitthvað upp um helgina. Svo styttist í að ég kíki heim í heimsókn, kem 26. okt og verð til 3. nóv. :)