17 desember 2008

The Klacke

Ég er komin á klakann... kom sl. föstudag og verð til 12 jan.
Ég og nafna mín ferðuðumst saman með dóttur hennar, sem betur fer segi ég nú bara. Við vorum með sitthvorta töskuna sem vógu 27 og 25 kg en þurftum ekki að borga yfirvigt því Brynhildur dóttir hennar mátti vera með 20kg líka :P En konan sem tékkaði okkur inn röflaði að töskunar væru of þungar.. en gerði svo ekkert í því :)
Flugið gekk vel og Brynhildur var ótrúlega dugleg að sitja í sama sætinu í 3 tíma, án þessa að trufla aðra of mikið.

Ég er búin að eyða einu degi eingöngu í lærdóm, þetta er ekki alveg að ganga eins og ég vonaðist til þar sem að mér tókst að ná mér í einhverja flensu. Var heima í gær, tókst svo að skila mat báðar leiðir svo ég ákvað að vera bara heima í dag líka, hef svo sem verið hressari. Því miður er erfitt að læra í þessu ástandi.

Annars var laufabrauðsbaktur hér í gær. Hef ekki verið með sl. 4 ár svo það var tími til kominn að maður fengi að vera með. Þar sem að ég hand sker allt úr þá er ég ekki jafn fljót að gera hverja köku eins og hinir en það er allt í lagi :) Mér finnst skemmtilegast að gera þetta svona :P

08 desember 2008

Styttist í "frí"

Já núna eru bara nokkrir daga í heimkomu... kem á föstudaginn, nánar tiltekið lending áætluð klukkan 15:30. Ég flýg með nöfnu minni og dóttur hennar, það á eftir að vera kannski eitthvað skrautlegt. Stelpan er rétt rúmlega 2 ára og nafna mín er ekkert rosalega hrifin af flugi. Við reynum bara að gera það besta úr þessu :)

Annars er nóg að gera. Á eftir að klára eitt skilduverkefni áður en ég fer heim, það reyndar gengur vel svo það getur vel verið að ég nái að klára eða komast langt með eitt af þessum verkefnum sem ég þarf að gera heima. Það er einhvern vegin alltaf að bætast við verkefni.
Þurfti upprunalega bara að gera eitt heima og skila því 7. jan. Síðan bættist við eitt verkefni vegna þetta að samvinna mín og einnar annarar sem var með mér í kúrsi gekk ekki upp. Svo var ég að komast að því að ég get gert eitt verkefni til þess að fá einingar, í einum kúrsi sem ég var í í vor, frá grunnstigi yfir á framhaldsstig. Sem þýðir að ég þarf ekki að fara til Lundar næsta haust bara til að redda nokkrum einingum... sem eru auðvitað æðislegar fréttir.
Þannig að það verður nóg að gera á meðan ég er heima.

Marie var hérna hjá mér um helgina. Við tókum því mestuleiti rólega, fórum í outlet í Kungsbacka á laugardaginn og um kvöldið keyptum við pizzu og horfðum á 3 DVD. Svo í gær fórum við í Liseberg og á allsång með Jul-Lotta. En þetta er 5ta árið í röð sem við gerum þetta saman og 3ja árið sem Eva frænka hennar kemur með. Ég ætla að reyna að koma út fyrir næstu jól og fara með þeim í Liseberg og á allsång með Jul-Lotta.

Annars hef ég tekið eftir einu hérna á kvöldin sl. 2 vikurnar. Upp úr kl 23 fer ég að heyra fuglasöng sem passar ekki alveg í desember en væri eðlilegt í apríl/maí. Ég held að einhver fugl hafi eitthvað misskilið.

Jæja ég ætla aðeins að læra meira áður en ég hætti í dag.
Sjáumst kannski um helgina ;)

30 nóvember 2008

Ullared

Ég fór með Guðrúnu og Tryggva til Ullared í gær. Það er lítill bær í klukkutíma akstri frá Gautaborg. En þar er strórt vöruhús sem er mjög ódýrt, selur nánast allt milli himins og jarðar. Þetta er svona eins og Hagkaup í Skeifunni bara MIKLU stærra og muuun ódýrara. En það er 20.000 fermetrar og það eru 60 afgreiðslukassar, sem allir voru í notkunn í gær.
Við kannski völdum ekki beint besta tímann til að fara niðureftir. Þegar við mættum á svæðið var röð inn og það tók okkur smá tíma að komast á endann á röðinni. En ég er búin að reikna út að hún hafi verið ca. 650 metrar. Við vorum í röðinni í 1 klukkutíma og 15 mín. Svo vorum við inni í búinni í tæpa 5 tíma. Get ekki sagt annað en að við vorum ágætlega uppgefin þegar við vorum búin.
Fólk fólk var að fara inn með 2-3 kerrur og komu út með þær alveg stút fullar. Við vorum 3 saman með eina kerru ;P

Ég læt fylja með mynd af svæðinu:

Gult= röðin
Rautt= vöruhúsið
blárr= þar sem við fundum stæði

26 nóvember 2008

Sólarlag

Mig langaði bara að deila með ykkur myndum sem ég tóka af sólarlaginu áðan... en það var mjög flott.


Ekki leiðinlegt að vera með Casino í bakgrunninum(eða forgrunninum kallast þetta kannski) ;Þ

22 nóvember 2008

3 vikur í jólafrí

Núna er ég búin með Lund í bili, á bara eftir að klára heimprófið (sem er aðeins meira trikkí en ég bjóst við) og senda það inn.
Ég skrapp til Köben á miðvikudaginn og kíkti í heimsókn í eitt heyrnartækjafyrirtæki, nafna mín í vinnunni sem líka býr hérna í Gbg kom með mér. Það var mjög gaman að koma í heimsókn. Sá sem við hittum fór með okkur í gegnum það nýjasta hjá þeim, þannig að núna vitum við eitthvað sem þær á HTÍ vita ekki ;P
Við kíktum svo í TIVOLI, mjög fínt að rölta þar í gegn. Keyptum ekkert enda ekki skemmtilegt að margfalda með 23. Mér finnst reyndar Liseberg aðeins meira kósý og kannski aðeins skipulagðra... kannski bara að því að ég þekki aðeins meira til í Liseberg.
Ég gisti svo hjá Karól. Mjög gaman að hitta hana, það er nú ekki oft sem að maður hittir vinkonur sínar þegar maður býr svona í útlöndum.
Svo fór ég til Lundar á fimmtudagsmorguninn. Ég er mjög fegin að þurfa ekki að fara þanngað aftur í bili, komin með nóg af þessu flakki.

Annars fer að styttast í jólaheimsóknina. Kem heim 12 des og verð til 12 jan. Þarf reyndar eitthvað að læra á þessu tímabili en það er allt í lagi, nægur tími.

Svo þarf ég að fara að hugsa enn meira hvenær ég á að flytja heim. Gæti trúað að það verði fyrr en seinna, sérstaklega þar sem að leigan hefur hækkað svo mikið þegar maður reiknar í íslenskum. Væri nánast til í að flytja í herbergi einhvers staðar.

Jæja ég er farin aftur að læra.

04 nóvember 2008

Búin að kíkja á klakann

Það var fínt að kíkja heim og þurfa ekki að hafa áhyggjur af hvort að maður ætti fyrir mat eða ekki.
Í staðinn lenti maður í því að get ekki keypt eitthvað því það var ekki til gjaldeyrir til að losa vöruna út úr tolli. Maður spreðar þá ekki á meðan.

Svo fór ég auðvitað í bankana til að ná mér í pening. Fór og athugaði með gamla reikninga sem ég hef ekki snert í fjölda ára, ss eing og skírnargjöf frá afa, hún hafði margfaldast aðeins :) Gott að gera reddað sér gjaldeyri.

Ég fór svo með peningana i bankann áðan, ekki eins auðvelt og ég bjóst við. Það er nefnilega þannig að það er bara hægt að taka út og setja inn pening til kl 15 en ég var þarna stuttu eftir 16. Reyndar er ný búið að opna nýtt útibú rétt hjá sem getur tekið á móti seðlum allan opnunartímann. Veit ekki hvað íslendingar myndu segja ef þeir mættu ekki taka út eða leggja inn pening eftir kl 15 þó bankinn sé opinn til kl 19. Þetta minnir mig nú á sum pósthúsin hér, en þau eru staðsett inni í sjoppum þar sem sama afgreiðslufólkið vinnur við bæði. Þrátt fyrir það opnar pósthlutinn klukkutíma seinna og lokar klukkutíma fyrr.
Þegar ég kom svo í rétta bankann spurði gjaldkerinn mig hvort ég vildi ekki taka frá smá pening mánaðarlega til að spara, sem ég afþakkaði kurteisislega. Þá spurði hún mig hvort ég væri alveg viss sem ég taldi mig vera. Þá sagði hún: svona 1-200 kr á mánuði, þá var mín orðin létt pirruð á þessum uppáþrengingum og sagðist þurfa á öllum þessum peningum að halda.

Annars var bara fínt heima, mjög fínt veður flesta daga. Mér tókst líka að hitta óvenju marga. Lærði aðeins minna en ég ætlaði mér en ég var undirbúin undir það.
Ég kíkti í íbúðina mína, en hún er í útleigu þanngað til að ég kem heim, svo ég gat ekkert unnið í að laga það sem þarf. Geri það bara um páskana í staðinn.
Svo var jarðsetningin hjá frænda mínum, sem bjó hérna í Gautaborg, á sl. föstudag. Lítil og fín athöfn í kirkjugarðinum og svo var kaffi heima. Hitti fullt af ættingjum sem ég kannast ekki við að hafa séð og líka aðra sem ég hef ekki séð síðan amma dó.

Ég komst svo að því í gær að Icelandair er farið að selja matinn í vélunum, við litla hrifningu mína. En þessi nýji skjár í sætunum er alveg fínt, miklu auðveldara að velja sér tónlist, svo er hægt að velja um 2 myndir og nokkra þætti.

Það er verið að setja upp jólaskraut um alla borg, sem betur fer er ekki búið að kveikja. Mér finnst annars þessi tími mjög fínn þegar jólaljósin lýsa upp haustmyrkrið.

Og svo í lokinn ætla ég að láta ykkur vita að ég kem aftur heim 12. des og verð til 12 jan, ekki amalegt.
Later.

14 október 2008

Íbúð

"Ég" fékk íbúðina afhenta í gær. Mamma og pabbi hringdu í mig seinni partinn í gær og sögðu mér að þau væru búin að taka við íbúðinni. Pabbi tók nokkrar myndi fyrir mig, læt þær fylgja hér:Annars er nóg að gera í skólanum. Á að skila 3 verkefnum í 2 kúrsum áður en ég fer heim. Eitt verkefnið var aðeins stærra en ég bjóst við svo getur verið að ég fái að skila einu aðeins seinna inn þar sem að kennarinn minn hefur skilning fyrir því að ég gat ekki lært mikið í sambandi við jarðarförina.

Annars er það allt búið í bili, eða í biðstöðu eins og er. Ættingjarnir þrufa að fá eitthvað til að skrifa undir til að samþykkja erfðarskrána. Biðin eftir arfinum gæti tekið allt að 6 mánuði. Stundum pæli ég í því hvað þetta hefði verið mikið vesen ef ég hefði ekki verið hérna úti. Alltaf gott að geta hjálpað til.

Í sambandi við þetta fjármálavesen heima þá finn ég alveg hvað ég hugsa um að spara eins mikið og ég bara get. Hef til dæmis bara keypt matvörur(sparlega samt) og lestarmiða, þar sem að ég þarf jú að fara til Lundar reglulega. Það er alveg hægt að spara ef maður vill ;)

10 október 2008

Allt á niðurleið

Ég veit ekki hvort maður eigi að ræða þetta ástand eitthvað. En eitt er ljóst að þetta tekur á, og þá sérstaklega andlega. Ég lifi af til næstu mánaðarmóta, en þegar sú leiga er greidd þá er lítið eftir. Svo ég ætla að vona að þeir reddi málunum sem fyrst.

Mamma fór í gær. Ég hitti hana niðri í Köben þar sem ég var í Lundi á fimmtudag og föstudag. Fór í smá heimsókn til Karólar, gisti hjá henni á föstudeginum. Við mamma spókuðum okkur svo í Köben, ekki mikið verslað enda allt með sérstöku íslendingaálagi. Svo kom Ingibjörg frænka mín og dóttir hennar á sunnudaginn. Við fjórar tókum svo lestina til Gbg.

Á mánudeginum byrjaði íslenski presturinn að koma til okkar og ræða við okkur í sambandi við jarðaförina sem var daginn eftir. Síðan fórum við að tala við útfarastofuna og fara í gegnum pappíra og því um líkt. Á þriðjudaginn var svo jarðaförin sem heppnaðist bara mjög vel. Íslenski kórinn kom og söng. Þetta var ekki fjölsótt athöfn enda ekki búist við því. En við vorum bara mjög sáttar við hana.
Á miðvikudaginn þurftum við svo að tala aftur við útfarastofuna og svo við fjölskyldulögfræðing útaf erfðarmálum. Og við sóttum öskuna sem flytja átti heim, að ósk frænda míns.
Þar sem mamma er ekkert sérstaklega sleip í sænskunni þá þýddi það að ég þurfti að túlka alla fundi, eða þýða aðal efnið. Og þá varð ég að skilja svo mín þurfti að biðja um auka útskýringar, en ég er vön að jánka bara þótt ég skilji ekki alveg, það virkaði ekki núna :P En ég er ekki frá því að hafa lært nokkur ný sænsk orð.

En mamma fór svo aftur í gær og ég fór aftur í skólann. Var að deyja úr þreytu allan daginn, það tekur á að hitta svona mikið af fólki og muna allt sem maður þarf að gera. Fyrir utan að þurfa að túlka og einbeita sér á að skilja.

Ég reyni að vinna eitthvað upp um helgina. Svo styttist í að ég kíki heim í heimsókn, kem 26. okt og verð til 3. nóv. :)

23 september 2008

Lífið í svíþjóð

Ég fór til Lundar á fimmtudaginn í fyrsta sinn á þessari önn, þarf að fara 4x í viðbót en það er ekkert miðað við fyrra haust. Marie er líka í þessum kúrsi svo það var voðalega gott að sjá kunnulegt andlit.
Ég fór svo með henni heim til foreldra hennar í Växjö um helgina. En þau eru að endurbyggja bóndabæ afa hennar. Við fórum svo út í skóg og tíndum sveppi, kantareller. Ég fann einn svepp... jeeejjj... það er frekar erfitt að finna þennan svepp þar sem hann er oft falinn. Annars tókum við því bara rólega.
Ég heyrði fyrsta jólalagið á þessu hausti á sunnudaginn. Við vorum inni í einni búð og þá var útvarpið á og það var verið að spila 80's lög og einhvern vegin datt þeim í hug að spila jólalag.

Annars gegnur skólinn finnt, það er mikið að gera, heldur manni við efnið og tíminn flýgur áfram. Er búin að vera dugleg að fara upp á bókasafn.

Ég var svo að frétta í kvöld að afabróðir minn var að deyja en hann býr hérna í Gbg svo ég býst við að þurfa aðeins að hjálpa til í kringum það. Enda eðlilegt þar sem að ég er eini ættingi hans hér. Annars er ein kona hér sem hefur séð um hann sem mun sjá um það mesta.

En lífið heldur áfram... Ég er búin að hitta leiðbeinanda minn fyrir mastersverkefnið. Hún er amerísk svo ég fæ aðeins að æfa mig í enskunni. Hún var allt öðru vísi en ég ýmindaði mér, útlistlega þeas. Mjög viðkunnaleg. Henni tókst reyndar að gera verkefnið margfallt stærra en ég ýmindaði mér. Svo við sjáum hvað ég geri. Allt opið... gæti þruft að finna annað verkefni.

En þetta er nóg í bili. Ég ætti kannski að skrifa niður þegar mér dettur í hug að skrifa eitthvað hér, því ég man það aldrei þegar ég loks sest niður og skrifa.

Bless í bili.

05 september 2008

Gautaborg

Komið sæl
Ég er komin til Gautaborgar, eins og kannski margir vita. Kom hingað sl. sunnudag.
Ég get ekki sagt að ég hafi hlakkað til að koma hingað í þetta skiptið. Byrjaði ekki að pakka fyrr en seinni partinn á laugardaginn enda fannst mér ég ekkert vera að fara út. Þegar flugvélin á vellinum hér langaði mig bara að loka augunum og vakna á Íslandi. Ferðin gekk nú reyndar ágætlega fyrir si fyrir utan töf í Keflavík vegna þess að eldvarnarkerfið fór í gang í farangursgeymslu flugstöðvarinnar og það gekk eitthvað illa að loka fyrir rennsli á vatninu sem gerði það að verkum að færiböndin virkuðu ekki svo ekki var hægt að checka-inn. Þetta varð að 50 mín seinkunn á fluginu, eins gott að ég var ekki að fara í lest.

Þegar ég kom svo í íbúðina tók þessi líka indilega klóakbræla á móti mér. En vatnið hefur ekki lekið í lögnunum hér í 2 mánuði. En þetta er orðið miklu betra núna þó ég finni ennþá einhverja skrítna lykt þegar ég kem inn.

Ég er búinn að fara í skólann einu sinni. En kúrsinn sem byrjaði fyrst er fjarnámskúrs sem við þurfum bara að í 3 sinnum, annars er allt hitt í gegnum netið. Næsti kúrs byrjar á föstudaginn eftir viku, ritgerðin, en það er ekki mikið um mætingu í þeim kúrs heldur. Ég ætla að reyna að vera dugleg núna í byrjun og klára fyrsta verkefnið í fjarnámskúrsinum sem fyrst, svolítið treg af stað en það kemur.
Svo fer ég til Lundar í einn kúrs sem er á fimmtudögum og föstudögum aðra hverja viku, svo ég mun fara til Lundar 5 sinnum í haust. En sá kúrs byrjar ekki fyrr en eftir tæpar 2 vikur. Svo byrjar 4 kúrsinn viku eftir Lund, á sömu dögum bara hinar vikurnar. Þannig að þetta fer ágætlega rólega af stað.

Ég fór í heimsókn upp á spítala í gær, en heyrnarfræðingar vinna á spítölum hér í Svíaríki. Þær voru nokkrar, á ráðstefnunni í júní, sem kvörtuðu yfir því að ég hefði aldrei kíkt í heimsókn. Þannig að ég skellti mér og var örugglega í 1,5 tíma. Mjög gaman að spjalla við þær en þær vildu endlega að ég kæmi reglulega, svo gæti ég líka haft samband við þær og við gætum kíkt á kaffihús eða bara eitthvað. Þetta er svolítið fyndið því þær eru 20-30 árum eldri en ég, en bara gaman að þessu.

Svo verð ég að nefna eitt í lokinn. Ég hef oft verið að bögga mig á því, hér í Svíaríki, þegar fólk(Svíar) er með handfrálsan búnað og halda á símanum á meðan símtalinu stendur og halda oft í snúruna með hinni hendinni (handfrjálst my &$$). Í gær þá sá ég eins sem mér fannst toppa þetta svolítið hún var með bluetooth og hélt samt á símanum(svona í brjósthæð).

Jæja þetta er fínt í bili.

19 ágúst 2008

Ofanleiti

Gengið var frá kaupsamningi í dag.
Þannig að ég er komin með húsnæði sem ég flyt síðan inn í þegar ég flyt aftur heim til Íslands :)
Þá er bara eftir að greiða þær upphæðir sem um var samið.

Reyndar á pappírunum á pabbi íbúðina en ég tek við henni þegar ég kem heim og er komin með fasta vinnu og laun.

15 ágúst 2008

Allt að gerast

Það er nú ýmislegt búið að gera síðan ég skrifaði síðast.
Það er reyndar ekki 100% búið að klára baðherbergið og enn vantar eldhúsborð.
Ég fór í 2 vikna sumarfrí fyrir verslunarmannahlegi, en það var lokað í vinnunni. Marie kom seinni vikuna og við keyrðum hringinn. En þar sem að hún hefur nú komið hingað áður þá gátum við sleppt ýmsu. En í grófum dráttum fórum við:
að Barna- og Hraunfossum
að Hvítserk
Jarðböðin
Hvala- og Reðursafn á Húsavík
Hljóðakletta
Ásbyrgi
Dettifoss
Seyðisfjörð
Skriðuklaustur(sáum gullhringinn)
Jökulsárlón
Upp á Svínafellsjökul
Skaftafell
Kirkjugólfið á K.b.klaustri
Kjölur
Hveravellir og í laugina
Sumó yfir Versló
Svo fór maður bara að vinna aftur eftir versló og Marie fór aftur heim.

Ég er svo búin að vera að skoða íbúðir í sumar, held að ég sé andlega flutt heim. Nenni ekki út í þetta skiptið, er alltaf að fá nýjar upplýsingar útaf skólanum en þær nýjustu eru jákvæðastar. Er sem sagt að fara að skrifa ritgerð núna í haust en hún verður klárum í vor þar sem að ég er í skólanum samhliða.
En aftur að íbúðarkaupum... "ég" var að gera tilboð í íbúð í Ofanleiti en það gildir til mánudags í hádeginu...

Hvernig væri það að verða íbúðareigandi... Ég er bara farin að hlakka til að flytja heim og í mína eigin íbúð... kúúúúlll.... ;P

Svo lítur út að ég sé að fara út í kringum 10 sept ekki 31. ágúst eins og planað var. En ég er á biðlista í kúrs sem að byrjar 3. sept svo ég veit ekkert fyrr en í fyrstalagi 4. sept hvort ég komist inn.
Svo eins og hlutirnir líta út núna get ég komið heim í byrjun des...laaangt jólafrí... ekki hægt að kvarta.

Svo tókst manni að verða kvartsaldar um daginn... fyrir þá sem það fór fram hjá :Þ

En jæja ég nenni ekki að skrifa meira... sjáum til hvort næstu skrif verða á klakanum eða í Gbg.

23 júní 2008

Komin heim og það langt síðan

Fólk kemur mannis sífellt á óvart. Áður en að ég koma heim talaði ég við Hildi A á Akureyri og hún sagði mér að hún væri ófrísk, ég var ekkert ofur hissa miðað við hvar hún er stödd í lífinu, en auðvitað skemmtilegar fréttir. Svo rétt áður en að ég kom sagði ein í vinnunni mér að hún væri líka ófrísk, ég bjóst svo sem við að það færi að koma að því, en aftur skemmtilegar fréttir. En núna var ég að komast að því að hún Hulda væri búin að gifta sig og hafði gert það um helgina á Þingvöllum einungis með nánustu ættingjum. Þá varð ég fyrst hissa, rosalega skemmtilegar fréttir en ekki bjóst ég við að þau færu að laumupúkast svona. Mjög ánægjulegar og skemmtilegar fréttir. Svo ég vil óska þeim til hamingju ;)

Annars var ég sjálf bara uppi í sumó um helgina þar sem að við mágkonurnar létum sólina steikja okkur svo ég er orðinn ennþá brúnni. Svo kíkti ég á vin minn Himbriman en hann er með hreiður í hólma nálægt landi.. tók líka nokkrar myndir af honum.

Annars er ég bara búin að vera að vinna. Byrjaði að fara á 3ja daga ráðstefnu hérna heima tengda heyrnarfræði á norðurlöndunum, mjög áhugaverð. Hitti þar marga sem ég kynntist í gegnum námið, fólk sem var að vinna þar sem við vorum í verknámi. Svo var leiðbeinandinn minn frá BS verkefninu þarna, talaði lítið við hann, held að hvorugt okkar hafi langað að tala við hitt.
Svo er ég búin að fara eina vinnuferð til Akureyrar og svo í síðustu viku fór ég ein í vinnuferð á Sigló.
Svo er ég núna að leysa heyrnarfræðing barna af eftir þörfum á meðan hún er í sumarfríi, ég þarf að vera til taks ef eitthvað kemur uppá eða ef barn greininst.

Svo eru ennþá framkvæmdir í gangi hérna heima, þetta er orðið frekar þreytandi, en þetta er allt að koma. Vantar bara matarborð og stóla, gler í sturtuna, borðplötu og vask á baðið.

Svo var ég að frétta að Alla vinkona mín í Gautaborg sé að fara að flytja heim, svo hún verður ekki í Gautaborg næsta vetur. Það verður frekar skrítið, ég verð bara að finna mér einhvern annan að fara á kaffihús með og bjóða í mat og fara í heimsókn til. :P

26 maí 2008

Niðurstöður

Þá er ég búin að vera með 2 Eurovision partý, bæði frekar róleg þar sem það eru próf og verkefna skil þessa dagana og allir þurfa að læra. En það er fínt að taka smá pásu og hittast til að horfa á þessa vitleysu sem er alltaf jafn skemmtileg :P Fyrir okkur skipti mestu máli að svíarnir væru með færri stig :P

Ég fór svo í magaspeglun í morgun. Mátti ekki borða í 6 tíma fyrir og einn tíma á eftir. Ég var búin að skoða þetta aðeins á netinu og tala við pabba um þetta en hann fór í þetta fyrir nokkrum árum. Var smá stressuð þar sem komið hefði fram að maður fengi slóvgandi, var líka búin að setja Öllu á bakvakt ef ég myndi þurfa einhverja fylgd heim. En svo þegar húkkan fór að útskýra fyrir mér hvernig þetta færi fram þá varð mér ljóst að ég yrði glaðvakandi á meðan :/ get ekki sagt að mér hafi liðið betur. Var deyfð í hálsinum þannig að það var erfitt að kingja og svo var slöngunni sem er ca. 1 cm í þvermál stingið niður í hálsinn. Mjög skrítin tilfinning að finna fyrri einhverju hreyfast í maganum. Æ þetta var bara frekar ógeðslegt en sem betur fer tók þetta fljótt af en manni finnst samt tíminn vera endalaus.
Læknirinn sagði að efra maga-opið lokaðist ekki nægilega og þess vegna kæmist magasýran upp í vélindað og það útskýrði afhverju ég væri rauð við magaopið. Svo sagði hann að ég væri með "reflux" eða bakflæði á íslensku. Mín fyrsta hugsun var: "nei er það virkilega!!" Jæja þá er sú greining komin... svo fæ ég einhverjar sterkari töflur.
Ég hef ennþá tilfinningu fyrir slöngunni í hálsinum og maganum... jakk

Jæja þá er bara að halda áfram að læra... heimkoma eftir 9 daga :þ

19 maí 2008

heimsóknir

Magga og Anna Sigga, vinkona hennar, komu í heimsókn á þriðjudaginn. Ég rölti aðeins með þeim um bæinn á miðvikudaginn þar sem að ég nennti ekki að læra, pressan ekki nógu mikil. Við kíktum svo í Liseberg um kvöldið, með fleirum, sem var mjög fínt, þrátt fyrir að ég hafi ekki farið í nein tæki nema litla parísarhjólið. Svo á fimmtudaginn fórum við í draugagöngu hér við Kronhusbodarna þar sem ég bý, en það voru "draugar" sem sögðu okkur aðeins söguna um Gautaborg fyrr á öldum. Eftir það fórum við 3 út að borða með Ragnari, Peter og Emeliu(kærustu Peters). Peter og Emelia fóru heim frekar snemma en við héldum áfram. En þar sem að ég var ekki með magatöflurnar mínar með mér og átti eftir að pakka fyrir helgina þá ákvað ég að fara ekkert á fyllerí en Magga, Anna og Ragnar héldu sko ekkert aftur að sér. Ég fór svo heim eitthvað í kringum 3 og þau komu svo öll til mín kl hálf 5 til að sofa, vel hress :)

Svo á föstudaginn tók ég lest til Karlskrona til að heilsa upp á Marie um helgina. Mér tókst að verða eitthvað kvefuð á leiðinni þannig að ég var ekki sú hressasta. Ég held að ég hafi eitthvað ofnæmi fyrir þessum stað þar sem að ég var líka eitthvað slöpp síðast þegar ég var í heimsókn.
Við fórum út að borða á laugardagskvöldið og pöntuðum okkur rif, svo þegar þau komu voru þau geðveikt þykk. Hnussu kjötlag á þeim en maður ákvað nú að sætta sig við þetta en svo komumst við allt í einu að því að þau voru ísköld í miðjunni. Ákváðum að fá okkur eitthvað annað og þegar við vorum búnar að ákveða okkur sagði þjónustustúlkan okkur frekar að fá okkur það dýrasta á matseðlinum, því við þyrftum bara að borga fyrir það sem við pöntuðum fyrst, og það var nautafile. Og auðvitað gerðum við það. Við vorum búnar að fá okkur forrét, þannig að við borðuðum forrétt, 2drykki og nautasteik fyrir 260 sek... sem er mjög vel sloppið.
Svo fór ég heim til Gautaborgar í morgun og þegar lestin var búin að keyra í 1,5 tíma af 4,5 þá var tilkynnt að klósettin væru biluð, eitthvað í samband við að þau hefði ekki verið tæmd eins og átti. Svo var okkur boðið upp á að fara á klósettið á 2 stöðum á leiðinni en ég held að flestir hafi náða að halda í sér þannig að lestin var ekki sein... mjög gaman

Þegar ég kom heim áðan sagði Alla mér að þau hefðu nokkur ákveðið að hafa partý hjá mér á fimmtudag og laugardag, ég er víst með stærsta sjónvarpið og stærstu íbúðina. Ég gat auðvitað ekki sagt nei. Þannig að núna er komin pressa á að læra og klára þessu 2 verkefni sem ég á að skila á föstudaginn... spennó...

11 maí 2008

Ströndin...

Við fórum nokkur saman á ströndina í gær, eða 9 saman, 4 stelpur og 5 strákar. Strákarnir ætluðu að vera rosalega harðir af sér og fóru í sjóinn en það heyrðust píkiskrækir í þeim langt upp á land. Á meðan voru börn að leika hliðina á þeim í sjónum eins og ekkert væri.
Við vorum þarna í nokkra klukkutíma og tókst að fá bara ágætis brúnnku eða á maður að kalla þetta bruna :Þ
Ég væri alveg til í að gera þetta aftur enda auðvelt að komast þanngað.

Síðan um kvöldið var ég með smá partý sem heppnaðist bara vel. Frekar rólegt en það var allt í lagi.
Ég er búin að setja inn nokkrar myndir frá partýinu hér svo setti ég líka inn ýmsar myndir frá því í vetur hér

09 maí 2008

Sól og skóli eiga ekki saman...

Það var bara stemning hjá Öllu þarna um daginn. Við vorum ca 20 manns, horfðum fyrst á skrúðgönguna og fórum svo og skemmtum okkur í íbúðinni hjá Öllu fram á rauða nótt.

Það er búið að vera mjög gott veður hérna undanfarði eins og ég hef kannski nefnt áður. Myndin er tekin seinnipartinn í dag, út um gluggan hjá mér. Er um að plana að fara á ströndina á morgun og liggja í sólbaði... kvarta ekki yfir þessari hugmynd. Og svo ætla ég að vera með smá partý um kvöldið.

Ég er búin að vera að fara yfir verkefni hjá einni sem er með mér í kúrsinum sem ég er að taka í fjarnámi frá Stokkhólmi, en það er sem sagt liður í verkefninu að gagnrýna annara verkefni. Vá ég hef aldrei séð jafn slæmt verkefni. Viðfangsefnið er alveg áhugavert þótt ekki sé mikið til af upplýsingum, sem er engin afsökun þar sem að við völdum okkur viðfangsefni sjálf. En ritgerðin er nánast öll eða minnst 90% copy/paste af heimildunum. Fyrir utan að það er lítið samhengi í málsgreinunum þar sem setningarnar eru teknar héðan og þaðan. Þetta er einn stærsti heimildastuldur sem ég hef orðið vitni af... vááááá...

Síðan er eitt mjög sniðugt.*hóst* En pabbi er með gervihnatta sjónvarp héðan í gegnum mig, eða það er að segja ég er áskrifandi af gervihnatta sjónvarpi hér. Svipað og ADSL sjónvarp Símans og Digital Ísland. En þar sem að ég er búin að vera kúnni svo lengi þá var hring í mig um daginn til að bjóða mér auka móttakara fyrir smá upphæð á mánuði. Ég sagðist ætla að ræða þetta við fleiri á heimilinu fyrst, þannig að þeir ætluðu að hringja seinna.
Síðan í gær, þegar ég var í skólanum, hringdu þeir fyrst kl 9:30 og ég skellti á og setti á silent, þar sem ég var í hópavinnu. Stuttu seinna hringdu þeir aftur og síminn fór auðvitað að titra og ég lét hringja út. Þeir skildu greinilega ekki hintið þannig að þeir hringdu 4-5 sinnum fyrir kl 11 og svo 2 milli 11 og 14. Síðan heyrði ég ekki í símanum þegar þeir hringdu kl 16:35 en þá var ég að koma heim. En þeir hringdu ekki aftur. Og hafa ekkert hringt í dag heldur. Ég meina það þetta trekt lið.

30 apríl 2008

Valborgarmessa

Í dag er einhver dagur sem svíarnir kalla valborgarmessukvöld, veit ekki alveg upprunann á því. En alla vegana þá djamma svíar mikið á þessum degi, og það er alltaf skrúðganga frá Chalmers... hef nú talað um þetta áður.
Við ætlum að hittast nokkur hjá Öllu en hún segist vera með opið hús, enda rétt hjá skrúðgöngunni.

Stelpurnar komu til mín í partý á laugardaginn, við skemmtum okkur bara vel, þrátt fyrir að vera bara 6 af 10. Kakan sem ég bakaði var bara mjög góð. Ef manni finnst after eight gott þá finnst manni þessi kaka góð :D Þær komu rétt eftir kl 21 og við fórum svo út kl 2. þeas þegar 2 ísl. strákar bönkuðu hjá okkur, en þeir vissu af okkur hér. Kíktum aðeins út með þeim og á staðnum sem við fórum á fann ég þennan sjálfsala:

(á mynd: 18 VISA LEG = 18 sýna skilríki) Ég hef bara aldrei skilið hvernig sjálfsalinn geti verið viss um að þú sért orðin 18 ára. Maður getur svo sem veifað skilríkinu framan í sjálfsalann ef manni líður betur. Æ þetta er bara eitt af því vitlausasta sem ég hef séð.

Ég er búin að vera rosaleg dugleg að hreyfa mig í vikunni, ætla ða reyna að vera duglega. Fór í sund á mánudaginn og synti í ca 25-30 mín, í gær og í dag fór ég svo út að labba í 25-30 mín.

en fyrst ég var að tala um síðast að ég væri utan við mig. Þá verð ég að bæta einu við. Ég ætlaði að fara inná mailið mitt fyrir Stokkhólmskúrsinn, mailið er: kurs08ipa@student.ki.se... fyrst gleymdi ég að skrifa ipa, í annari tilraun skrifaði ég gu í stað ki (@student.gu.se er skóla mailið í Gautaborg), í þriðju tilraun skrifaði ég .is í stað .se, í fjórðu tilraun skrifaði ég .com.... en rétta mailið kom svo í 5du tilraun.

26 apríl 2008

Gleðilegt sumar

Jæja núna er í alvörunni komið sumar. Ég er búin að vera svolítið úti í sólbaði og bara komin með ágætan lit... ég er meira að segja viss um að ég er brúnni en pabbi þó hann segist vera brýnni.

Ég hef veri eitthvað utan við mig upp á síðkastið. Eins og þeir sem hafa komið í heimsókn til mín kannast við að ég hengi lyklana á hurðarhúninn, þá veit ég hvar þeir eru. Þetta er einhvern vegin fast í, ég bara geri þetta án þess að hugsa. En 2 sinnum á ca viku tímabili fann ég hvergi lyklana, en þá hafði ég sett þá á hurðarhúninn hinu megin við hurðina... og í seinna skiptið voru þeir þar alla nóttina :/
Svo tókst mér að detta inni í einnu búð, alveg sjálf, var ekki lengi að koma mér út. Sama dag var ég að fara að hella vatni úr vatnsflösku og var að opna hana á leiðinni að vaskinum, en á einhvern klaufalegan hátt byrjaði ég að hella áður en ég kom að vaskinum og það fór hellingur af vatni á skápshurðina undir vaskinum :/

Ég er loksins búin a bjóða Öllu í mat, en hún fékk hakk og spagettí al la Marie. En það er að mínu mati fínt hakk og spagettí. Eins og ég(já eða mamma) er vöna að gera hakk og spagettí er ekki alveg hægt að bjóða upp á þegar gestum er boðið í mat.

Annars ætla ég að vera með partý í kvöld fyrir nokkrar íslenska stelpur, við verðum eitthvað í kringum 10 saman. Þekkjumst svona mis vel, en það verður bæting úr því. Tilvonandi saumaklúppur ?!? aldrie að vita :Þ
Ég ætla að baka eina köku fyrir stelpurnar, myntusúkkulaði köku. En hún er í kökubók sem að ég á. Marie bakaði einu sinni kökuna hér hjá mér en fór með hana í afmæli og svo hef ég gefið mömmu uppskriftina fyrir saumaklúbb... en ég hef ekki fengið að smakka hana sjálf og hef ekki haft tækifæri til að baka hana, þar sem að ég vil ekki bara baka hana fyrir sjálfa mig.

Ég er í hálfgerði 2 vikna fyrirlestrapásu í skólanum, en það er nóg að gera í verkefnum í staðinn. Eitt heimapróf, klára eitt verkefni(búin) og gagnrýna frá örðum og svo á ég að taka 20-30 viðtal og skrifa það niður frá orði til orðs(tekur að mér skilst 4-6 klukkutíma). Þetta á að vera búið 7.-8. maí. Held að það sé nú alveg hægt að gera þetta án stress ef maður bara planar fyrir fram og fer eftir planinu. En þar sem að maður verður líka að vera í sólbaði þegar sólin skín þá skulum við nú ekker vera með of stór orð. :Þ

Ef einhver veit um einhver sem er að spá í að fara til Gbg í sumar þá gæti ég lánað íbúðina mína á tímabilinu frá annari vikunni í júlí til seinni hluta ágúst. Mjög centralt.

Jæja farin að baka...

P.S. ég er að reyna að vera dugleg að skrifa hér

19 apríl 2008

sól sól skín á mig...

Það er nú ekki mikið búið að gerast hjá mér sl. daga, nema að ég og Alla erum búnar að vera duglegar að hittast og ég skulda henni kvöldmat :Þ

Það er búið að vera mjög gott veður í vikunni og ég er búin að liggja smá í sólbaði, já maður verður nú að vera orðinn brúnn þegar maður kemur heim :D og svo er auðvitað planið að halda brúnkunni.

Ætlaði að skrifa eitthvað hérna í vikunni en ég man ekkert hvað það var :Þ

Ég er búin að kaupa mér miða heim 4. júní en ég er að fara á ráðstefnu heyrnarfræðinga frá norðurlöndunum á Nordica. Ég er ekki búin að kaupa mér miða aftur til baka en það verður líklega rétt í kringum menningarnótt... eins og ávallt.

Ég er hinsvegar búin að kaupa mér lestarmiða til Marie, ætla að kíkja til hennar yfir eina helgi í maí.

Svo líklega í maí er ég að fara í magaspeglun, en þegar ég talaði við heimilislæknirinn í vikunni sagði hún að það væri næsta skref í þessum magamálum mínum. Já það er víst ekki hægt að segja við lækni "ég er með bakflæði". Heldur vilja þeir frekar sitja mann á pillur og sjá hvernig það virkar. Ég er sem sagt komin á biðlista og bíð núna bara eftir að fá tíma. Spurning hvort þeir komast að einhverju og geta þá gert eitthvað fyrir mann :Þ

Jæja ég er farin út í sólbað :D

12 apríl 2008

riiight!!

Jájá ég sem ætlaði að vera duglegri að blogga eftir að ég kæmi aftur út... RIGHT.

ég er búin að vera rosadugleg, að mér finnst, að fara upp á bókasafn að læra. Á að skila 5-10 bls ritgerð eftir tæpar 2 vikur og ég er búin með 3. En það er ágætt þar sem að ég er líka að læra fyrir 2 aðra kúrsa.
Það er alveg ótrúlegt að þar sem að enskan á alveg ógrinni af orðum og það eru til mörg orð yfir sama hlutinn, að svo komi orð eins og right og það hefur tvær merkingar og það er alveg hægt að misskilja það. Ég var að lesa heimildagrein í vikunni og á einum lista stóð: Choose the right ear. Ég var orðin frekar þreytt þegar ég las þetta en það var ekkert sem gat hjálpað mér í að ákveða hvort þetta átti að vera "veltu hægra eyrað" eða "veldu rétta eyrað". Ég trúi nú frekar á það fyrra. En sem betur fer er ritgerðin sem ég er að skrifa líka á ensku.

Fór með Öllu að hitta nokkra íslendinga um síðustu helgi. Hópurinn sem hittist þá voru ca 10 gaurar allir í verkfræði og flestir bara búnir að vera hér síðan í haust. Svo var grillpartý hjá þeim í gær, en það komu 2 pör sem að ég hef hitt áður hér og 2 aðrar stelpur sem ég hef ekki hitt. Þetta er alveg ágætis hópur, nenni meira að hitta íslendinga hópa núna...
Fór síðan líka í afmæli til Lottie í gær, það komu 2 að mér í gær og vildu fá staðfestingu á því hvort að ég væri íslenska stelpan. Ég endaði með því að fara heim þegar farið var niður í bæ, enda ástandið ekki það besta. En þetta var nú samt ágætis kvöld :)

Var að komast að því í síðustu viku að ég mun ekki vera komin með Master eftir ár. En það þýðir ekki að ég sé ekki að flytja heim eftir ár. Málið er þannig að Lundur er eini skólinn sem að hefur heimild til að útskrifa Mastersnema, en þeir ætla ekki að vera með kúrsinn í að skrifa Mastersritgerð fyrr en í fyrsta lagi haustið 2009. Svo á maður, skv þeirra skipulagi, að skrifa fyrst magister ritgeð. Þannig að ég mun skirfa Magister fyrst og fá þá gráðu og síðan skrifa Mastersritgerðina, en hana mun ég líklega skrifa á íslandi.
Mín líking á þessu er eins og að einhver bjóði gestinum sínum köku, sem gesturinn þakkar en svo þegar gesturinn ætlast til að fá þessa köku sem honum var boðið, þá er sagt við hann "Neeei... ég á enga köku(og hef aldrei átt), ég ætla bara að baka hana einhvern tíman seinna"

Jæja nóg komið af vitleysu

02 apríl 2008

Komin til Gbg aftur

Ég er sem sagt komin til Gautaborgar aftur. Fínt að vera komin út og í mína eigin íbúð, sérstaklega þegar heimilið á klakanum lítur svona út:Ferðin gekk bara vel, náði lestinni þrátt fyrir seinkun á vélinni. Hitti svo stelpu í lestinni sem var með mér í bekk 2 fyrstu árin. Svo við gátum spjallað í hálftíma.
Annars er bara ágætis veður hér og maður finnur fyrir að vorið er á leiðinni, 10° hiti og fínt. Sól í gær en rigning í dag.

Ég er ekki enn búin að taka upp úr töskunni, hjálpar ekki að ég setti öll fötin mín, sem ég skildi eftir, í ferðatösku, svo ég þarf að taka upp úr henni líka :S

Ég fékk panik þegar ég kom heim og fór í gegnum póstinn minn og sá að ég átti að staðfesta þátttöku í einum kúrsi fyrir 5.mars. Ég sendi mail til að ath hvernig þetta væri. Í gær fékk ég svo póst um að ég hefði staðfest þátttökuna 24/2, mundi náttúrulega ekkert eftir því... en fór að ráma í það. Og þar sem að ég er með nýja tölvu þá er ég ekki með e-mailin mín og gat ekki ath hvort ég hefði sent staðsettninguna.

Jæja á maður ekki að fara að læra... það má gera tilraun:Þ

26 mars 2008

skrifiskrif

Jájá ég ætla að skrifa smá.
Ég fór sem sagt til Stokkhólms um daginn, nánar til tekið 9-16. mars. Ég var í skólanum alla vikuna, og það endaði með prófi sem ég er enn ekki búin að fá úr.
Ég ætlaði að skrifa á meðan ég var þarna en tölvan mín fór á gelgjuskeiðið og reyndi að fremja sjálfsmorð, en hún vildi ekki fara aftur til Svíþjóðar. Þegar ég kveikti á henni í Svíþjóð þá kom bara blár skjár. Eftir nokkrar símhringingar í tölvunörda vin minn þá var úrskurðuð að lítið væri hægt að gera fyrir hana nema að straua hana alla en þá gat verið einhver von... sem sagt niðurstaðan: tölvukaup fyrir 31. mars.
Þarna í Stokkhólmi var verið að halda úrslit söngvakeppninnar fyrir Eurovision. Auðvitað fórum við í partý en það var svona 100m frá Globen(þar sem Eurovision var haldið 2000) ég á eftir að setja inn einvherjar myndir. Það sem var merkilegast við þetta partý var að þetta var hommapartý, af 9 einstaklingum vorum við 3 kvennmenn en allir einstakklingarnir áttu eitt sameiginlegt = áhugi á karlmönnum :Þ Svo fórum við á hommabar þar sem 95% einstaklinga á staðnum voru karlmenn. Ég hef aldrei farið áður á skemmtistað þar sem að enginn karlmaður reynir við mann... sem var svo sem ekkert slæmt í þessu tilfelli þar sem ég var að fara til Íslands daginn eftir :Þ Það var líka svolítið spes að sjá fullt af karlmönnum að reyna við aðra karlmenn.

Annars fór ég norður um páskana, sem er svo sem ekkert nýtt :Þ
En það var mjög gott að komast norður og slappa af. Ég fór norður með Jón og Lilju en svo komu foreldrarnir á fimmtudag. Við fórum svo heim á mánudaginn, J&L fóru reyndar á sunnudag. Við nenntum ekki að fara heim fyrr þar sem það er búið að stúta eldhúsinu hérna á heimilinu. Nýr ísskápur stendur á miðju stofugólfinu en aðrar eldhús græjur eru ekki í boði. Fyrir utan þá er allt í ryki og drullu.
Æ ég hlakka hálf til að fara út aftur og losna úr þessari drullu.

En já ég er sem sagt að fara af landi brott á mánudaginn. Skrítin tilfinning en það verður fínt að komast í sína eigin íbúð og hitta vini/vinkonur.

Þetta er ágætt í bili - ný tölva á morgun... jibbbýýý!!

28 febrúar 2008

Tími til kominn...

Það virðist einhvern vegin vera að þegar maður skrifar ekki lengi á síðuna sína þá fer maður að taka betur eftir því hverjir lesa bloggið hjá manni. Ótrúlegasta fólk hefur bent mér á að það sé orðið frekar langt síðan ég skrifaði síðast og það er alveg rétt.

Ég er sem sagt enn á Íslandi þó að það styttirst í vikuferð mína til Stokkhólms. Ég er enn að vinna en þó ekki með börnin, það var bara tímabundið verkefni.
Núna sit ég uppi í vinnu hjá pabba og er að læra, þessu eftirmiðdagur gekk þó hlutfallslega betur en allur síðati mánudagur í lærdómi.
Ég er á skrautskriftarnámskeiði og er að fara á það kl 17:15, svo er ég að fara á Pabbann í kvöld með Erlu frænku. Hlakka rosalega mikið til þó að ég sé ótrúlega þreytt eftir daginn. Fyrst vinna, svo læra, svo kemur námskeið og eftir það Leikhús.
Ég fór í leikhús með JHildi um daginn, við sáum Ladda sem var auðvitað snilldar sýning. Ótrúlegt hvað ég er orðin menningarleg núna, 2 leikhúsferðir með mánaðar milli bili :D Hef ekki farið í leikhús síðan ég sá Með fullan vasa af grjóti hér um árið.

Annars er ekkert svo mikið að frétta þannig. Jú ég verð ein heima um helgina þar sem m&p eru farin til Köben. Lítið palnað um hlegina.

En núna þarf ég að fara að yfirgefa skrifstofuna hans pabba og koma mér á skrautskriftar námskeiðið.

29 janúar 2008

Barna-alvaran er byrjuð. Mætingin hefur nú ekki verið 100%, af mismunandi ástæðum. En mér líst bara vel á þetta, auðvitað er alltaf auðveldara að koma inn í málin og þekkja ekki börnin þannig að ég nota mikinn tíma til að kynna mér mál þeirra barna sem eru að koma til mín. Auðvitað er þetta mjög krefjandi starf og mikið sem maður þarf að fylgjast með og vita en það er það sem að mér finnst svo spennandi. Foreldrarnir eru mismunandi eins og þeir eru margir. Sumir tala og tala aðrir segja ekki neitt og svo eru þeir sem eru bara vanir og hinur sem eru óvanir og ekkert af þessu fer eitthvað meira saman en annað. Krakkarnir eru svo misáhugasamir um að láta fikta í tækjunum sínum hvað þá að þurfa að taka þátt í stillingunum... auðvitað er miklu skemmtilegra að leika sér á bílateppinu á gólfinu með bílana og kubbana.
Stundum finnst mér ég ekki vita neitt og nánast fer að hugsa hvað ég hef verið að læra en svo þarf ég bara að minna mig á að mín reynsla er aðalega á fullorðnum. Þetta kemur allt saman. Sú sem ég er að leysa af kemur svo aftur í vinnu eftir 4 vikur og þá ræðir maður bara málin.
Svo er ég að fara til Akureyrar með vinnunni á föstudaginn... ég hlakka bara svolítið til verð ég að segja. Þetta verður langur dagur, tek fyrsta flug kl 7:45 og er ekki komin heim fyrr en einhvern tíman um kvöldið eða eftir 9 alla vegana.

Við stórfjölskyldan(ég, m&p og J$L) fórum norður um helgina. Ég veit ekki hvort fólkið í vinnunni trúði mér þegar ég sagðist vera að fara norður. Þegar við keyrðum kjalanesið þá sást ekkert of mikið. Þegar við áttum stutt í göngin skildum við ekki alveg afhverju bíllinn á undan keyrði svona mikið út í kantinum en föttuðum svo að hann var að leita af afleggjaranum í Hvalfjörðinn...hihihi... Svo á Holtavörðuheiðinni sást á milli stika... ekki mikið meira en það. Og þar sem að hann bróðir minn er nú ágætis bílstjóri þá komust við nú klakklaust alla leiðina. Svo á leiðinni tilbaka var ekki nema 35m/s á Holtavörðuheiðinni... kannski sem betur fer voru engar kviður :Þ
En annars var helgin bara ágæt... gott að komast í burtu og slappa af. Fór meira að segja í pottinn en það var líklega -4°C þá stundina... hressandi að fara upp úr :Þ

23 janúar 2008

Komin heim

Erla var kom til mín á fimmtudaginn og var fram á mánudag, en þá fórum við saman heim. Við versluðum frekar mikið, aðalega var hún að versla barnaföt á litla frænda, gerðum alveg svakalega góð kaup. Á einum stað var 50% af útsöluverðinu... bara snilld.

Við kíktum líka í innfluttningspartý hjá Erik og félögum, Erla komst á séns þar með einum gaur sem nennti að tala ensku við hana. Hann fékk númerið hjá henni og hringdi tvisvar í hana með stuttu milli bili á sunnudeginum til þess að reyna að komast á kaffihús, í þriðja skiptið svaraði hún ekki. Þetta var ekki alveg að gera sig.
Við kíktum líka í Gautarborgar safnið.
Svo þurfti að þrífa og taka til í íbúðinni extra vel þar sem Jón og Sigga(foreldrar J.Hildar) ætla að vera í íbúðinni í 2 mánuði.

Ferðalagið heim gekk bara mjög vel, þrátt fyrir að þyrfa að vakna kl 5:20. Lentum kl 14:40 og foreldrar Erlu sóttu okkur út á völl. Fórum heim til þeirra á meðan foreldrar mínir voru í vinnunni. Andrea var heima hjá foreldrum sínum með litla kauða sem er reyndar nefndur Kristján eins og er. Svo ég böggaðist í honum í ca. einn og hálfan tíma til að fá hann til að vakna... gekk ekki alveg... honum var alveg sama.

Svo fór ég út að borða með vinnunni á mánudagskvöldið, en það kom dani í heimsókn að kynna heyrnartæki svo hann bauð okkur út að borða. Ég byrjaði svo að vinna í gær(þri) dagurinn var nú annars bara rólegur, fékk mína fyrstu kúnna í dag, og eitthvað meira á morgun og svo fer þetta að fara á fullt. Fæ svo fyrstu börnin til mín á föstudaginn en síðan byrjar barna-alvaran á mánudaginn :)

Þar til næst...

17 janúar 2008

4 dagar í heimkomu

Er núna að bíða eftir Erlu frænku en lestin hennar á að koma kl 16:15 til Gautborgar. Við ætlum kannski að kíkja á handboltann í kvöld. Það væri gaman að kíkja með nokkrum svíum, þá erum við alla vegana 2 á móti hinum. Kannski að við kíkjum á einhvern sportbar hér í nágrenninu.

Annars var ég fá spennandi verkefin í vinnunni. En það vill þannig til að leikskólabörn(með heyrnarskerðingu) eru að koma í sína árlegu skoðun núna í lok jan og sú sem sér um börninn þurfti skindilega að fara í veikindaleyfi og þá var ég beðin um að taka hluta af þessu að mér. Sem að mér finnst bara ótrúlega spennandi :O Las e-mailið í lok hádegishlésins í skólanum og átti mjög erfitt með að einbeita mér það sem eftir var dags :/ Var alltaf að hugsa um þetta. Mér finnst þetta ótrúlega spennandi, auðvitað er ég smá stressuð en það er bara eðlilegt. Krefjandi verkefni sem gaman verður að takast á við. Vona bara að ég fái ekki leið á krökkunum, því þá er ég í vondum málum. En ég efast nú um að það gerist.
Svo var á planinu að ég fari 2 sinnum til Akureyrar heiland dag, veit ekki hvort að þetta verkefni trufli það eitthvað.

Það verður skrítið að koma heim í 2 mánuði yfir vetrar tímann og sérstaklega þar sem að ég er ekki búin að kaupa miðan til baka. En hafið ekki áhyggjur ég fer aftur út :þ Þarf nú líka að kaupa mér miða til Stokkhólms, þarf að fara þanngað í viku. Kannski að ég fari á tónleika með Rihanna... Marie var eitthvað að tala um að hún væri að fara að halda tónleika.

Jæja klukkutími í Erlu.

13 janúar 2008

8 dagar í heimkomu...

Kíkti aðeins á djammið í gær, en hef ekki gert það af alvöru í frekar langan tíma, já eða mér finnst það.
Við fórum nokkrar saman og skemmtum okkur ágætlega þó að ég hefði valið einhvern annan stað. Á endanum voru ég og Lottie bara einar eftir en hún hafði fundið sér einhvern gaur. Á meðan ég leifði henni að daðra við gaurinn á barnum kom einn gaur til mín og við vorum bara mesta að spjalla en hann virtist verða hálf fúll þegar ég vildi ekki að hann kæmi með mér heim.
En það er alveg ótrúlegt hvað gaurar eru uppteknir af því hvaðan maður er. Ég veit ekki hvort þetta sé bara almennt hjá svíum þar sem langið er stórt og margir eru aldri upp í minni bæum en flytja svo í stærri bæina. En ég er alla vegana orðin nett þreytt á þessu, kannski aðalega vegna viðbragðanna. Það er greinilega svo hrikalega merkilegt að maður sé frá Íslandi og að maður tali ágæta sænsku eftir að hafa búið hér í meira 3 ár. Stelpurnar voru að segja mér að vera ekkert að segja of mikið, bara segja "já ég bý í Gautaborg" reyndi þetta í gær en það gekk illa, forvitnin varð bara enn meiri.

Ekki get ég ímyndað mér fólk á djamminu í Rvk "hvaðan ertu?" "Ertu úr Reykjavík?" Vá hvað ég hlakka til að verða "eins og allir hinir". Reyndar finnst mér strákar á íslandi ekki eins opnir á djamminu og svíarnir.

Stundum langar mig bara að hætta þessu rugli hérna og flytja heim. Verst að þá þarf maður að finna sér íbúð en kjörin eru ekki þau bestu núna.

10 janúar 2008

stutt eftir

Núna er ég búin að klára kennslu/uppeldisfræði prófið sem ég var farin að kvíða verulega fyrir. Daginn eftir að ég kom sat ég á bókasafninu frá 8:30 til 16:30 og var frekar búin á því. Lenti í smá veseni daginn eftir þar sem að ég fór eftir leiðbeiningunum en það átti maður víst ekki að gera, sem gerði það að verkum að ég fékk ekki næsta hluta fyrr en ég var farin að athugamálið því seinkunin var orðin of mikil. Sat svo fyrir öðrum hlutanum allan laugardaginn og á mánudagskvöldið var umræðutími þar sem við áttum að gagnrýna verkefnið hjá örðum munnlega og verja sitt eigið. Það var mikill léttir að fá að vita að ég hafði náð, bara smá smotterí sem ég þurfti að laga, og þá er ég að tala um bara útlitslega séð. En það stóð hvergi að þetta færi svona formlegt og að við ættum að vera með heimildalista og læti. Ég var bara að svara prófspurningu.

Byrjaði svo fyrir alvöru á Tölfræði heimaprófinu í gær og komst frekar langt með það. Í dag gerði ég svo aukaverkefnið sem ég átti eftir að gera í kennslu/uppeldisfræðinni þar sem að ég mætti ekki í fyrsta umræðutímann(skyldumæting). Þetta er búið að sitja á hakanum alla önnina. En ég kláraði þetta og sendi þetta inn. Ég komst að því á mánudaginn að ég hef verið skráð í vitlaust nemendafélag alla önnina. En málið er hér að maður fær ekki einingarnar sínar ef maður borgar ekki í nemendafélag. Ég spurði svo kennarann hvort þetta væri ekki í lagi en hann sendi mailið áfram og þá kom svar um að ég ætti að skipta um nemendafélag. Ég talaði svo við nemendafélagið sem ég er í og þá var þetta eitthvað vesen fyrir utan að önnin er næstum því búið og ætti ekki að skipta neinu máli. Svo ég sendi á þessa manneskju aftur og tók þessari reiði minni bara þegjadi og hljóðalaus og kom með svar sem var svipað og "já ok" svo við sjáum til hvort að ég fæ einingarnar. Svíar og þessar hlev. reglur.

En annars þá fór ég á skauta með Lottie á þriðjudaginn, maður verður að gera eitthvað skemmtilegt inn á milli. Vorum á skautum í 2 tíma og skemmtum okkur mjög vel og erum búnar að ákveða að fara aftur á mánudag eða þriðjudag.
Um kvöldið fór ég svo í bíó með Öllu og Eret vinkonu hennar á Goodluck Chuck. Fín mynd en svolítið of pínleg á köflum en ekki yfir strikið.

Annars setti ég inn nýjar myndir í gær(minnir mig) smá yfirlit yfir des '07 og jan '08
Svo er ég búin að kaupa flugmiða heim 21.jan fer aftur eftir páska. Og Erla frænka er búin að kaupa flug til mín 17. til 21. jan. Svo ég fæ bæði heimsókn og ferðafélaga heim... getur ekki verið betra :)

Þetta er orðið ágætt í bili

01 janúar 2008

Gleðilegt ár

Ég er búin að hafa það fínt hérna í fríinu heima. Búin að hitta 2 lítil börn, litla frænda og hann Jónas Breka hennar Huldi, sá í leiðinni nýju íbúðina hjá þeim Huldu og Gumma bara rosalega fínt verð ég að segja.

Var í áramótapartýi hjá Jóni og Lilju í gær, við vorum 16 manns en fjölskyldurnar eru frekar misstórar :Þ Maturinn var mjög góður en þær systurnar Lilja og Kristín voru búnar að standa í eldhúsinu allan daginn.
Við vorum klikkaði nágranninn en Beggi, mágur Lilju, var búin að redda fáránlega mikið af flugeldum. Húsið snéri alveg rétt og við vorum í ágætis logni við útidyrnar og rokið gerði það að verki að allur reykur og glóð fóru frá húsinu.

Annars hefur lífinu bara verið tekið með ró í dag. Fór til ömmu til að kveðja hana og svo til móðurbróður míns.
Pakkaði ALVEG SJÁLF á meðan foreldrarnir horfðu á Óla... á bara eftir að setja skyrtuna sem ég er í ofan í tösku :)
Svo er bara flug í fyrramálið kl 8:00... á sæti í vélinn og ætla bara í sjálfsafgreiðsluna svo ég þarf ekkert að mæta ooof snemma.

Svo er tekur við heimapróf þegar ég kem út... kvíður nett fyrir

En þar til næst... í Svíþjóð
Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla