19 desember 2004

Heima

Jæja nú er ég komin heim og býst ekki við að skrifa mikið hér á meðan. En ef einhver vill hafa samband þá er ég í gamla númerinu mínu 897 4494. Ég er ekki að vinna enda þarf ég að læra smá, svo ef þið viljið hittast þá endilega hafið samband.
Ég fer svo aftur út 3. jan

12 desember 2004

Alveg að koma

Jæja núna er ég laveg að fara að koma heim. Ég kem heim á laugardaginn kl 15:3o svo það er bara vika í það.
Það er búið að vera mikið að gera sl. liðina daga. Ég er búin að fara í munnlegt próf í sálfræði sem var ekkert mjög slæmt an ég þurfti nú samt að lesa mikið fyrir það, slapp nú frekar vel las ekki einu sinni 2 af 4 bókum sem við vorum með (reyndar einn kafla í annari) Enda voru bækurnar flestar um sama efnið. En ég er búin að ná áfanganum svo þetta skipir ekki máli lengur, fyrir utan að áfanginn hafði lítið að gera með okkar atvinnu(Þroskasálfræði??). Svo í gær(föstud) var ég í Anatómíu og ég held að það hafi bara gengið ágætlega. Meira að segja þá var ég næstum því búin að sleppa að svara einni spurningu því ég hafði ekki hugmynd um svarið en ákvað svo að giska, svo komst ég að því að svarið var rétt, ég trúði því varla.
Svo er ég að byrja í Eðlisfræði á mánudaginn þannig að það er allt orðið rólegt aftur enda gott eftir þessa lestrar törn. En þar sem önnin er plönuð örðru vísi hér en á íslandi þá þarf ég að læra um jólin. Við klárum hvern áfanga fyrir sig og erum bara í einum áfanga í einu. Ég mun þurfa að vinna upp í jólafríinu það sem ég missi úr en ég býst ekki við að það verði erfitt, svo kemur próf í jan.
En ég hlakka til að koma heim, býst ekki við að skrifa mikið, ef eitthvað, hér inná á meðan ég er heima.

03 desember 2004

Ferðalagið til Vexjö vikan á eftir

Jæja ég er komin til baka úr þessu ferðalagi og gott betur en það. Þetta var mjög gott ferðalag. Á leiðinni keyrðum við fram hjá einskonar vöruhúsi sem er samt eiginlega eins og Hagkaup í Smáranaum en bara margfaldar það nokkrum sinnum. Og þar sem þetta er svona stórt þá er þetta líka mjög ódýrt. Ég keypti mér örbylgjuofn :) Loksins get ég fengið örbylgjupop enda var ofninn vígður með því að poppa. Svo þegar við komum til Vexjö þá sá ég svolítið merkilegt. Eldhúsið heima hjá foreldrum Marie, er með nákvæmlega sömu skápunum og heima hjá mér...!
Það sem við gerðum í Vexjö var að: baka piparkökur, steypa kerti, föndra jólakort, skoða gler vörur því verksmiðjur KostaBoda, Orrefors ofl. er þaðan, svo fórum við að höggva jólatré, fórum á Jólahlaðborð, og fórum auðvitað líka út á djammið ;) Svo auðvitað verð ég að taka það fram að ég talaði mikla sænsku þarna, ég reyndi að tala bara sænsku ef einhver annars var með í samræðunum heldur en bara ég og Marie. (solt, stolt :þ )
Ég mun reyna að setja inn myndir á eftir eða á morgun.
Svo í dag var ég í munnlegu lokaprófi í Sálfræði, ég er búin að vera með í maganum út af þessu og sem betur fer er þetta búið. Þetta gekk ágætlega að ég held en maður veit aldrei. Svo næsta föstudag er ég að fara í lokapróf í Anatómíu, svo ég mun vera að læra næstu daga því að við höfum ekki verið í anatómíu í 5 vikur svo ég þarf að ryfja mikið upp... :/

25 nóvember 2004

Á leið í ferðalag

Jæja þá er ég búin með minn hluta af þessu ágætlega stóra verkefni sem að við áttum að gera. Ég endaði með að svara 3 spurningum á 7 bls, ekki slæmt. Ég vona bara að þetta komi vel út.
Ég er búin að setja inn myndir frá því að ég fór í Liseberg. Myndir segja ekki allt en sumar eru þó mjög flottar.
En svo er ég að fara til Växjö í Småland á eftir með Marie, þetta er í 3-4 tíma keyrslu héðan. Við ætlum að koma við í Ullared en þar er einhverskonar verslun þar sem maður getur keypt margt á ódýrt. Það má vel vera að maður sjái eitthvað:) Við munum svo koma aftur heim á mánudag. Þetta verður örugglega bara gætis ferðalag.
Ég læt ykkur svo vita hvernig ferðalagið gekk eftir helgi... :)

21 nóvember 2004

Mikið hefur gerst og mikið að gera

Jæja núnar er allur snjór farinn enda hvarf hann mjög fljótt. En hins vegar er búið að frost síðan um síðustu helgi svona frá 0 - -5°C kannski ekki mjög kallt en samt mjög kallt þegar maður þarf að fara út og labba í kannski 20-30 min eða meira. Svo er líka raki í loftinu svo það virðist vera meira er það er.
Ég fór á hnotubrjótinn á fimmtudaginn. Það var bara fínt, ég hef nú ekki séð þetta áður. Það var ballethópur úr "listaháskólanum" sem var að sína þetta verk.
Svo á föstudag fór ég loksins í Liseberg. Það er búið að opna fyrir jólin og allt orðið í jólaskrauti. Það eru 3.2 milljón ljósaperur í garðinu og mörg tré eru öll þakin í seríum, næstum hver einsast grein. Ég tók nokkrar myndir og munu þær koma fljótlega inn á myndasíðuna.
Svo í dag sunnudag fór ég á jólamarkað við Tjolöholms slott(höll eða herragarð) þetta er einnig safn svo við fengum að fara inn og skoða. Þetta var ágætis frí frá lærdómi, en ég er eiginlega búin að eiða síðast liðnum dögum í að gera verkefni í sálfræði. Ég þarf helst að vera búin með þetta verkefni fyrir fimmtudag en það hljóðar upp á 3 spurningar sem þurfa að vera 1-2 bls hver, svo er allað verkefni sem ég þarf að klára fyrir miðvd. sem hljóðar upp á að lesa 2-300 bls og svara 8 spurningum. Ástæðan fyrir því að ég við vera búin fyrir fimmtudag er að ég er að fara með Marie í heimsókn til foreldra hennar sem búa í Vexjö í Småland um 3 tíma akstur héðan. Ég bíst við að þetta gangi allt saman upp. Og þess vegna ætla ég að halda áfram... :) Skrifa meira seinna ef ég lendi ekki inni á Kleppi

17 nóvember 2004

slabb

Jæja ég get ekki sagt að þessi snjór ætli að stoppa lengi, það er farið að rigna og það er bara slabb úti.
Og ég er búin í sænskunni, þessi tími fór aðalega í að tala og lesa smá, það var bara fínt enda vorum við bara 6 í stað 10. Við töluðum mikið um jólin...sem eru auðvitað alveg að koma. Og fyrir mér hafa þau verið alveg að koma í kannski mánuð :þ
Ég er kannski að fara á hnotubrjótinn á morgun, við vorum búnar að panta miða en gleymdum að sækja þá í gær eins og við áttum að gera. Ef við fáum ekki miða þá ætlum við að fara í bíó á Stage Beauty. Hér þarf maður að panta bíómiða fyrir fram og svo sækja þá 50 mín, held ég, fyrir sýningu. Svo þarftu að borga aukalega fyrir að bóka á netinu, einkennilegt.

Snjór!!!

Nohhh.. það er farið að snjóa hér í borg gauta. Ekki er það nú mikið en snjór samt. Það er farið að festast á gangstéttinni en ekki á götunni. Svo það er allt að verða hvítt enda -0.2 skv nýja hitamælinum mínu :) Þetta byrjaði kannski fyrir 45 mín síðan.
Ég fór í IKEA í gær og tókst að eyða smá pening en allt var þetta nauðsinlegir hlutir til að gera herbergið mitt huggulegra og svona meira í röð og reglu.
Svo er ég að fara í síðasta sænsku tímann minn, loksins. Ég get ekki sagt að þetta sé það skemmtilegasta sem að ég geri, að fara í sænskutíma, en samt kannski ekkert slæmt.
En jæja ég er farin út í snjóinn að rölta í tíma :)

14 nóvember 2004

Verði þér að góðu...

Jæja, nú var ég góða stelpan og bauð Marie í mat. Í matinn voru kjúklingabringur með sólþurrkuðum tómötum, pestó og ostasósa úr sólþurrkuðum tómataost(ísl), og svo var auðvitað hrísgrjón og salat. Þetta kom bara mjög vel út og henni þótti þetta mjög gott. Svo vorum við búnar að vera að læra saman. Reyna að svara einhverjum spurningum fyrir sálfræði. Ekki alveg það sem okkur langaði að gera en þetta er eitthvað sem við verðum að gera, og það er auðvitað skemmtilegra að gera þetta tvær saman heldur en í sitthvoru lagi. Og svo skil ég ekki heldur allt. Ef einhver getur sagt mér hvað "betingning" er á íslensku þá væri að frábært, því þýðingin "conditioning" á ensku meikar ekki alveg sens hjá mér.
Svo á föstudaginn vorum við Marie með stelpukvöld, þar sem við vorum með fullt að borða og horfðum á DVD.
Við keyptum miða á tónleika hjá Destiny's Child í Stokkhólm, þeir verða ekki fyrr en 17 maí 2005 en maður verður að kaupa miða í tíma fyrir svona. Sérstaklega í landi þar sem búa 9 milljónir og það eru bara einir tónleikar með þeim.
Svo opnar Liseberg um næstu helgi fyrir jólatímabilið, svo við ætlum að fara þanngað og skoða, ég hef ekki enn farið. Líklega förum við í einhver tæki, ég held að maður geti ekki annað þó að ég sé ekkert rosalega hrifin af svona tækjum en það kemur í ljós hve "slæmt" þetta er :)

11 nóvember 2004

Trégrindin kom loksins :Þ

Ég fór í skólann í dag, en það var einn af þeim fáu dögum sem ég þarf að mæta í skólann í þessum mánuði, 3 fyrirlestrar sem eru 2 tímar hver, 3 umræðutímar sem eru 3 tímar hver og svo einn í viðbót sem ég veit ekki alveg hvernig verður, próf? ritgerð? En alla vegana fyrirlesarinn tala á milljón, ég skil ekki alveg hvernig hún getur tala svo hratt miðað við að hún er að halda fyrir lestur !!?!! hummm...
En vitið þið hvað?... Ég fékk loksins trégrindina undir dýnuna mína sem ég fékk 28. sept. Í byrjun átti ég að fá trégrindina viku eftir dýnunni, svo þegar dýnan kom þá átti þetta að koma 2 vikum seinna. Eftir þetta fékk ég ekki lengur dagsetningu, fyrr en á fimmtudaginn. Þá hringdi gaurinn í mig og sagði á þriðjudaginn!! En ég gat eiginlega ekki trúað því, ég hafði rétt fyrir mér!!! Trégrindin kom í gær(miðv.d.) 6 vikum seinna. En ég fæ hana endurgreidda, sem er bara gott mál ;)
Ég fór í bíó áðan með Marie, við fórum á Wicker Park. Þetta var bara ágætis mynd. Hún er svolítið spes en samt bara fín. Alla vegana af mínu mati :)

07 nóvember 2004

Á djammið

Jæja ég fór til Marie í gær og ég hugsaði svo mikið um að taka myndavélina með að ég barasta mundi eftir henni í þetta sinn en... ég auðvitað gleymdi að ég hefði verið með hana þanngað til að við vorum að flýta okkur í sporvagninnn, sem við næstum misstum af. Svo það voru engar myndir teknar en ég setti samt inn myndir í gær af herbergjunum mínum, þær eru misgamlar en samt eins og upp röðunin er núna.
En við fórum 4 saman niður í bæ í gær, það var bara fínt. Staðurinn sem við fórum inn á er ekki alveg minn týpu staður til að dansa en samt ekkert slæm tónlist. Á meðan við vorum í röðinni töluðum við við stráka sem fengu mjög mikinn áhuga á að ég væri frá Íslandi því það var eldgos. Svo komust þeir líka að því hvað sænska og íslenska eru lík t.d. Ég heiti X = Jag heter X, Hvað viltu að ég segi á íslensku = Vad vil du at jag seger på islänska. Fólki finnst alveg ótrúlegt hvernig ég get verið í námi þar sem fyrirlestrar eru á sænsku og flest námsefnið er á sænksu, það skilur ekki hvernig ég fer að þessu. Maður kemst bara einhvern veginn inn í þetta!?! Svo þegar við vorum búin að vera inni á þessum stað, sem er frekar vinsæll held ég, þá ætluðum við að fara á annan stað en þá var hætt að hleypa fólki inn og átti að fara að loka og klukkan ekki orðin 3 svo fórum við að leita af öðrum stöðum eða börum sem ekki þarf að borga inn á. En svo rákumst við á einhvern strák sem við töluðum örugglega við í hálf tíma, aðalega um útlit á öðru fólki sem labbaði framhjá. En svo endaði bara með því að við löbbuðum heim, eða Marie labbaði með mér næstum því alla leið og tók þar nætursporvagn heim. Var komin heim kl 4. Sem er ágætis tími. En vá hvað ég hlakka til að komast á djammið í Rvk þegar ég kem um jólin...!!!

06 nóvember 2004

sl. vika

Jæja nú er ég byrjuð í Sálfræði og það er ekkert lítið sem við eigum að lesa fyrir þennan ágæta kúrs, en hann kannski líður hratt yfir. Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega fyrir svona áfanga, en hins vegar hefur Marie vinkona mín mikinn áhuga á þessu svo við ætlum að reyna að hjálpast smá að. Svo á mánudaginn er umræðu tími hjá mínum hóp, 15 manns, og þar þarf maður að taka þátt því við fáum svo einkunnina út frá þessum umræðutímum.
Ég var í smá matarboði hjá Marie á fimmtudaginn en við vorum 6 sem vorum hjá henni, þetta var bara gaman en ég skildi ekki alveg allt sem fór þarna fram því að þau töluðu auðvitað sænsku og eru ekkert að spara hraðann, og ég hafði mig alla við til að skilja. Fyrr um daginn höfðum við verið í tíma og kennarinn talaði á milljón svo ég þurfti að hafa öll skylningarvit opin í tímanum. Svo þegar ég kom heim um kvöldið eftir alla þessa hröðu sænsku þá var ég alveg búin.
Síðan fór allt í rugl hérna hjá mér um daginn þegar við fengum að vita hvernig tímunum yrði háttað í eðlisfræði sem verður í des og ég komst að því að ég mun missa 4 daga í skólanum. Mamma og pabbi vildu að ég tæki flug aftur út einum degi fyrr þe. 2 jan til að minnka þetta niður í 3 daga, sem var svo sem allt í lagi þanngað til að við komumst að því daginn eftir að það var ekkert laust í vélinni, nema 1 jan. Mamma vildi að ég færi að taka það flug en ég var ekki sátt, því ég verð að taka fyrsta flug til að ná lestinnu og það þýðir flug kl 8 leggja af stað um 5 út á völl og það eiðinleggur gamlárskvöld alveg... Svo við sættumst á að gera ekkert í málunum. Ég mun bara læra í fríinu :/ Stundum fer þessi skóli alveg í taugarnar á mér.
Jæja en við stelpurnar (og kannski strákurinn) í bekknum ætlum að hittast í kvöld og skemmta okkur, fara í bæinn saman og svona. Það komast ekki allir því þetta var bara ákveðið á fimmtudaginn en það er ágætt að hrista smá upp í hópnum :) Og ég ætla að muna eftir myndavélinni í þetta sinn, ég steingleymdi henni á fimmtudaginn.
Svo er einhver frídagur í dag, Allra heilagra dagur held ég að það þýðist, svo það á víst allt að vera lokað eða alla vegana mikið af búðum. Og mig minnir að þetta sé einnig dagurinn þar sem allir fara og leggja blóm á leiði ættingja sinna eins og flestir íslendingar gera á 23. og 24. des. Jæja ég ætla að fara að lesa þessa sálfræði...

31 október 2004

Heimsókn nr. 1

Jæja þá er fyrsta heimsókn frá Íslandi búin og mamma og Lilja eru komnar og farnar. Þær komu kl. 17 á miðvikudag og fóru áðan kl 13:25. Svo ég er aftur orðin ein.
Þetta var mjög skemmtileg heimsókn. Þegar þær komu fórum við út að borða með Marie vinkonu minni, en hún var að fara heim til foreldra sinna yfir helgina svo þetta var eina tækifærið til að hitta hana. En svo á fimmtudaginn var notaður í að rölta um á milli búða, sem var ekki leiðinlegt :) enda eignaðist ég buxur. Svo var eiginlega verslað líka á föstudaginn en ekki eins mikið. Við fórum svo út að borða á fínan veitinga stað á 23ju hæð í einu stærsta hóteli norðulandanna en það er með um 1000 herbergi...! Við fórum með íslenskum hjónum sem mamma þekkir hér, Hanna og Helgi, ekkert smá góður matur. Svo eftir að við vorum komin heim fórum við Lilja í bæinn til að djamma smá, ætluðum ekki að vera lengi því planið var að fara líka út á laugardag en við komum heim kl hálf fjögur, kannski ekki svo slæmt. Við rákumst á einn mjög fínan stað eftir smá rölt, það var reyndar ekki mikið að fólki þar en við komumst svo að því seinna að fólk fer aðalega út á laugardögum ekki föstudögum. Hér borgar maður inn á flesta staði sem eru með almennilegri tónlist. Svo á laugardaginn(í gær) fórum við á Norrænt listasafn hér smá norður af Gautaborg. Hanna frá kvöldinu áður vildi endilega taka okkur þanngað. Ég get ekki sagt annað en að þetta hafi verið spes og kannski einkennilegt. Svo fórum við í heimsókn til afabróður míns sem er á elliheimili en hann er með Alzimer og man ekki neitt en samt svolítið fyndinn karkter. Svo virðist hann tala bara íslensku við húkkurnar svo þær skilja hann ekki. Svo fórum við Lilja aftur niður í bæ í gærkvöldi enda ekki annað hægt. Og jú ég get alveg viður kennt það að það var mikill munur á fjölda fólks í bænum. Sem sagt Svíar djamma á laugardögum, og mikið af stöðum erum með 25-27 ára aldurstakmark og ekki láta þér detta í hug um að þú gætir litið út fyrir að vera eldri en þú ert, þeir tékka skilríki hjá öllum. Við fórum á fínan stað þar sem voru þrjú dansgólf með mismunandi tegundir af tónlist og alls ekki troðið þarna inni enda stór staður. Maður fer þanngað aftur :) Í þetta skipti komum við heim kl 5 en samt eigilega kl 4 þar sem tíminn breyttist í nótt og við græddum einn tíma, svo núna er ég einum tíma á undan Íslandi í stað tveggja. Já og svo fóru þær mamma og Lilja áðan, ég fór auðvitað með þeim út á lestarstöð en þá beið þeirra 4 tíma lestarferð til Köben. Jæja ætli þetta sé ekki orðið gott í bili ég ætla svo að setja inn myndir eftir smá stund en það ætti að verða í dag :)

25 október 2004

Comment

Jæja nú fer að styttast í að ég fái heimsókn frá Íslandi, eins og ég var búin að segja áður þá koma mamma og Lilja í heimsókn á miðvikudaginn og verða fram á sunnudag. Þetta á örugglega eftir að vera gaman, ég efast ekki um það. ´
Í næstu viku munum við byrja í sálfræði, en þá munum við vera með Iðjuþjálfum í tíma, held ég ef ég er með rétta þýðingu: Arbetsterapeut. Endilega látið mig vita ef þetta er eitthvað vitlaust. Já, ég er núna komin með "comment"akerfi núna sem ekki þarf að skrá sig inn á. Ég var búin að fá kvartanir yfir því en þetta er komið í lag.
Í gærkvöldi þá var ég í matarboði hjá íslendingunum sem ég bjó hjá fyrstu vikuna. Það var bara mjög fínt. Svo í morgun þegar ég vaknaði var þessi líka hrikalega rigning og með þrumum og eldingum, og fyrir þá sem ekki vita þá finnst mér ekkert gaman af þrumum og eldingum. Jújú eldingarnar eru flottar úr mikilli fjarlægt, en þegar þær eru nálægt þá finnst mér ekkert gaman. Ég er líka viss um að einhverjir hafa heyrt sögur um mig og þurmur&eldingar frá því að ég var í USA.
Ég fór í ræktina í gær með Marie vinkonu minni, við fórum í svona step up tíma. Þetta gekk svonaaaaa. Ég hef aldrei gert þetta af neinu ráði og var alveg rugluð í tímanum en samt gaman. Í dag er ég með einhverjar harðsperrur en samt alls ekki eins og ég bjóst við. Ég ætla svo að fara aftur í dag ef það stangast ekki á við sænskutímann minn.

16 október 2004

Litli íslenski heimurinn

Já heimurinn er lítill. Í gær var afmæli hér hjá leigjandanum mínum henni Eddu en hún var að halda upp á 30 afmæli elsta sonar sína, og hún bauð mér að vera. Einn góður kostur að búa hjá íslendingi er að það er mjög líklegt að hún þekki aðra íslendinga, svo ég gat talað við nokkra. Ein kona(ísl sem heitir Kristín) sem var hér í gær er vinkona mömmu Lísu vinkonu minnar, svo er mamma Lísu að vinna hjá tannlækninum mínum. En ég kynntist Lísu samt ekkert í gegnum það. Svo þekkir veit Kristín einnig hver bróðir afa míns var. Við komumst reyndar ekki að neinu fleiru sem við gátum tengt en mér fannst þetta sniðugt.
Annars þá var um 30 manns hér í gær og mér tókst að babbla einhver svör við þeim spurningum sem ég fékk, þó að flest hafi svörin verið já og nei og þess háttar, þá tókst mér nú samt að búa til heilar setningar en þær innihéldu stundum(ekki alltaf) ensk orð. En þetta tókst :)

13 október 2004

Merkilegur hlutur

Einn merkilegur hlutur gerðist áðan. Ég settist fyrir framan sjónvarpið, nánar til tekið heima hjá vinkonu minni, og horfði á fótbolta. Í mínum heimi er þetta mjög merkilegt því að ég tel þetta vera í fyrsta skipti sem ég horfi viljandi á fótbolta. Ég gat reyndar varla sleppt því þar sem Ísland var að spila á móti Svíum og vinkona mín hefur mjög mikinn áhuga á flestum íþróttum. Annars get ég lítið tjáð mig um frammistöðu leikmannanna í leiknum nema að mér fannst samlandar mínir heldur grófir. Og fáránlegt að við skildum hafa tapað 4-1, 3ja marka munur. En hvað veit ég um fótbolta, jú nánast ekkert :) Það er bara merkilegt að ég sé að tala um þetta

En svo var ég líka að fá staðfest í dag að mamma og Lilja(kærasta bróður míns fyrir þá sem ekki vita) eru að koma hingað eftir 2 vikur... VÁ!!! hvað ég hlakka til að fá heimsókn :)

11 október 2004

Haust í Gautaborg

Jæja ég hef ekki skrifað hér lengi og kannski engin bein afsökun með það. Það er farið að kólna all svakalega hér í Gautaborg en samt er ekki rok eða rigning svo þetta er enn ágætt. Ég er búin að vera lítið í skólanum undan farið þar sem ég er í raun á milli áfanga en hér eru áfangarnir 5 vikur hver, núna er ég byrjuð í Anatómíu eða líffærafræði.
Á föstudaginn fór ég í stærsta IKEA í heimi. En þetta IKEA opnaði fyrr í sept. Mér tókst auðvitað að kaupa nokkra hluti enda var það ætlunin, en ég var "alveg í sjokki" yfir því hvað þetta var ódýrt. 8 tréherðastré, 8 trébuxna herðatré, 2 30x40 smellurammar, 1 venjulegur rammi, 2 vasar(fyrir eitt blóm)og dallur fyrir penna allt þetta fyrir tæpar 1900kr ísl. Svo fór ég í aðra búð á laugardag þar sem var rýmingarsala og ég fékk garínur fyrir tæpar 1000kr ísl sem er bara frábært. Svo það er allt orðið heimilislegra hér hjá mér.

03 október 2004

Hálfgert rán..

Ég er búin að komast að því að símakostnaður er algjört rán hér í Svíþjóð. Hugsið ykkur að ef þið eruð að hringja innan fyrirtækis á daginn( milli 7 og 19) þá er gjaldið 4,85kr sek(47kr ísl). Þetta er rugl... En þeir eru hinns vegar mun skárri á kvöldin og um helgar en þá er gjaldið ekki nema 0,37kr sek(3.6kr ísl). Svo eru öll SMS 1,2kr sek(11.7kr ísl). MMS er síðan svo dýrt að manni dettur ekki einu sinni í hug að senda svoleiðis. Og svo auðvitað þarf maður að borga fyrir að hlusta á talhólfið sitt. Það er ódýrara fyrir þá sem eru með Frelsi á íslandi að hringja í mig heldur en fyrir mig að hringja innan fyrirtækis á daginn, sem er fáránlegt. Þetta er allt mjög svipað hjá fyrirtækjunum... nema 2 fyrirtæki eru með þetta aðeins öðruvísi. Þá er mínútugjaldið alltaf það sama og SMS eru ódýrari en þá er bara hægt að fylla á á netinu. Ég á 2 númer og annað þeirra er svoleiðis. Bráðum verð ég með 2 síma og 2 númer, til að hringja sem ódýrast. Mér tókst nefnilega að klára 100kr sek(976,5kr ísl)á 9 dögum sem er klikkun að mínu mati því að ég hringdi ekki mikið.
Ég fór aðeins á djammið á föstudaginn. Ég get nú ekki dagt að þetta sé eins og í henni Reykjavík. En þetta var nú samt bara fínt. Maður þarf að borga til að komast á dansgólfið(yfirleitt á efrihæð) en ef maður er bara á barnum(niðri) þá þarf maður ekki að borga. Svo það er ekkert svona rölt hér í borg. Ég er nú ekki frá því að mig fari að langa að rölta á milli staða i miðborg rvk.

28 september 2004

Góða nótt

Jæja núna er dýnan mín komin og ég hlakka til að fara að sofa á eftir :)

Svo eru líka komnar nýjar myndir frá því að ég fór í keilu

Er þetta háskóli eða hvað...

Ég hélt að ég væri næstum því komin aftur í 6 ára bekk í morgun... eeehhh kannski ekki alveg en alla vegana í 10. bekk. Við vorum í stærðfræði og ég komst að því að ég hefði ekki þurft að læra jafn mikla stærðfræði og ég gerði í MH. Svona voru dæmin sem við vorum að fara í gegnum: x=4, y=3 12x+y=? ; a=8 a/2=? ; 5x+3x-x=? ; x+3=17 x=? ; 5xy+10x=? ?=5x(y+2). Svo auðvitað að ++=+, +-=- og --=+. Ef þú hefur farið í gegnum náttúrufræðibaut/eðlisfræðibraut í framhaldsskóla þá er þetta eiginlega djók. Það liggur við að ég hafi lært of mikið til að skilja þetta ;) Eina ástæðan fyrir að ég fór ekki heim var að ég þarf að skilja hugtökin á sænsku... svo var ég að hjálpa vinkonu minni. Svo lagði kennarinn áherslu á að við þyrftum að kunna þetta!!

27 september 2004

Á leið á sænskunámskeið...

Ég verð að segja að mér brá þegar ég sá frétt á mbl.is um að MH eigi að fá íþróttahús árið 2006 og þá mun þessi 40 ára bið vera á enda. Alveg ótrúleg...! Hvenær ætli þeir muni segja "ekki var hægt að klára bygginguna vegna fjárskorts en hún mun opna eftir x mörg ár"? Svipað eins og með Þjóðleikhúsið. En alla vegana þá vona ég að þetta gangi upp hjá þeim.
Ég fór í keilu á laugardaginn með nokkrum krökkum, mér gekk mjög vel í byrjun þar sem ég fékk 2 fellur í fyrstu tveim skotunum. En ekki gat ég haldið þessu lengi. Ég get þó huggað mig við eitt, ég tapaði ekki :)
Ég er farin að finna svolítið fyrir því að vera fátækur námsmaður sem þarf að hugsa um peninga, ég reyni samt að hugsa ekkert of mikið um það. En svo fær maður líka námslán eftir jól og þá verður þetta þæginlegra, ég er þá ekki bara að eiða heldur fæ ég einnig einhverja innkomu á móti.
Ég er að fara að byrja á sænskunámskeiði á eftir... ég er nú ekkert búin að vera neitt of dugleg að reyna að læra sænskuna, þ.e. málfræðilega. Ég keypti mér kennsku/verkefnabók fyrir byrjendur, kannski er það bara að hún er of létt fyrir mig þess vegna nenni ég lítið að gera í hana, en ég er nú samt búin með eitthvað.
Svo hringdi dýnumaðurinn í mig áðan og ég fæ dýnuna á morgun, gat fengið hana í dag en ég þarf að fara á námskeiðið. Svo nú fer ég að sofa betur og bakið verður ánægðara.

21 september 2004

Gestabókin

Jæja núna er ég loksins komin með gestabók... sérstaklega gert fyrir þig elsku besti frændi(Egill) ;) En auðvitað mega allir skrifa í hana eins oft og þeir vilja...

20 september 2004

Sofðu rótt..

Á sl. föstudag vorum við að gera heyrnarpróf á hverju öðru. Það var mjög gaman og áhugavert að sjá virkilega hvering þetta virkar. Ég er bara með mjög fína heyrn. Á tíðninni 500 - 2000 Hz er ég með -8 dB en á tíðninni 3000 - 8000 Hz er hún 0 dB. Og svo fyrir þá sem ekki vita er eðlileg heyrn undir 20 dB og algjört heyrnarleysi er yfir 120 dB.

Svo fór ég á nýnema kvöld uppi í skóla á föstudag. Það var bara mjög fínt. Það var einn strákur sem spurði mig hvort að ég skyldi "Elfish"(úr Lord of the Rings)...!?! Mér fannst þetta frekar skrítin spurning.

Svo komst ég að því um daginn að ég yrði að kaupa mér nýja dýnu í rúmið þar sem sú sem ég er með er allt of mjúk, ég hef ekki sofið vel sl. 2 vikur, sem er ekki gott. Vakna upp um 4 leytið illt í bakinu... Svo ég fór að skoða rúm og ég endaði auðvitað með að kaupa bestu fáanlegu dýnuna...TEMPUR. Ég fæ hana reyndar ekki fyrr en eftir viku en það liggur við að ég sofi betur vitandi að ég sé að fá betri dýnu. Það er nú eins gott að fá sér almennilega dýnu þar sem maður eyðir 8 tímum að meðaltali á dag í rúminu sofandi. Svo var maðurinn sem seldi mér dýnuna svo almennilegur að hann lét mig fá trégrindina(120cm) á verði 90cm því hann fann ekki verðlistann, svo gaf hann mér fluttninginn þar sem ég bý svo nálægt og svo að lokum gaf hann mér lak til að vernda dýnuna. Svo var vinkona mín með mér og ég held að hún sé eitthvað að spá í að fá sér yfirdýnu úr TEMPURefninu, því hún er að fara að fá sér nýtt rúm.

Í dag var ég svo í atvinnukynningu á Sahlgrenska, og fer aftur á morgun, þar sem ég var að fylgjast með heyrnarfræðingum mæla heyrn á fólki sem er með heyrnarvandamál. Það var bara frekar gaman ;) Ég hlakka til þegar ég er búin með námið og fer að vinna. :)

14 september 2004

Íslendingar

Ég fékk hringingu í dag sem ég skildi ekki í byrjun, ekki útaf því að sænska væri töluð... nei heldur var þetta hrein íslenska. Konan sem hringdi var frá Sendiráði Íslands í Stokkhólm.. hvað ættu þeir að vilja mér. Hún talaðu um að hafa fengið einhverjar upplýsingar (eða e-ð) frá Lögreglunni í "(staðurinn sem ég gerði skýrslu um þjófnaðinn)". Og enn var ég ekki alveg klár á því hvert manneskjan væri að fara. En svo jú, hún sagði að öllum skilríkjunum mínum hafi verið skilað inn og að hún væri með þau og myndi senda mér þau. Ja hérna!! Einhver hefur komist að því að hann hefði ekkert við þetta að gera og skilað því inn í staðinn fyrir að henda því. Þó að ég hafi mest lítið að gera við debit og kredit kortin, þar sem ég er búin að fá ný, þá er samt ágætt að vita að einginn sé að reyna að notfæra sér þetta. Það er líka fínt að fá ökuskírteinið, það sparar mér það að þurfa að mæta í eiginpersónu í Sendiráðið í Stokkhólm til að sækja um nýtt eða að þurfa að býða til jóla, fyrir utan kostnaðinn við að fá nýtt. Ég fór svo að hugsa eftir á... hvernig komst hún að númerinu mínu??? En þá fattaði ég að ég var nýbúin að tala inn á talhólfið og láta vita af númerinu hér... sem betur fer, því annars hefði hún sent allt draslið til Íslands. En myndavélin og peningurinn var ekki með í fundinum:( enda gat ég varla búist við því.

Svo er tölvan hans Tobba míns bilðuð þessa stundina, en er í viðgerð, svo ég hef ekki getað talað við hann eins mikið og mig langar:( Við erum nefnilega búin að vera að tala saman í gegnum netið á Skype, þá þar maður ekkert að hafa áhyggjur um að tala of lengi. Símreikningurinn minn var orðinn annsi hár, svo þetta var nauðsyn. En þetta virkar líka bara fínt. Núna er um við aftur bara í GSM sambandi... í bili.

Eins og þið kannski sjáið þá er ég búin að bæta útlitið. Búin að bæta við hérna til hliðar, en þetta tókst með dyggri hjálp frá Ragnheiði. Ég fer bara að verða tölvusérfræðinur... neihh held ekki...

11 september 2004

2 vikur í skólanum

Núna er búnar 2 vikur í skólanum og þetta gengur bara ótrúlega vel. Við erum mikið núna í hópavinnu þar sem eigum að skrifa ritgerð útfrá sögu sem við völdum, og hún átti auðvitað að hafa eitthvað að gera með heyrnarlausa eða heyrnarskerta. Ég er nú ekki en búin með bókina en hún er tæpar 300 bls, sem betur fer þá fann ég hana á ensku.
Í dag er fyrsti dagurinn sem það rignir í tæpar 2 vikur, veðrið er búið að vera mjög gott, svona um 20°C
Ég var að labba heim um daginn og þá rakst ég á búð sem seldi legsteina og merkti þá, sem er svo sem ekki frá sögu færandi nema að á einum steininum sem stóð í glugganum stóð: Selma Lagerlöf, en þetta minnti mig bara á Stellu í orlofi. Var hún ekki Lagerlöf?
Ég er núna komin með sænskt símanúmer, en mér tókst nú reynar að fá mér 2 númer. Ég keypti eitt í gegnum netið, sem var ódýrast en svo var ég með vinkonu minni og kona kom og vildi tala við okkur, og hún bauð upp á að borga 200 kr á mánuði og geta þá hringt í alla sem voru í þessu símfyrirtæki frítt. Vinkona mín tók þessu tilboði og konan gaf mér þá frelsis númer innan fyrirtækisins svo vinkona mín geti hringt í mig frítt. Svo ég býst við að taka það númer yfir þegar inneignin á hinu er búin, en annars kemur það bara í ljós. Númerin eru sem sagt: +46 73 594 8121 og +46 73 255 8949. Ég er aðalega með fyrra númerið til að valda sem minnstum misskilningi.
Svíarnir eru alveg ótrúlegir með reglurnar sínar. Ég gat ekki notað passan minn til að fá ID til þess að geta borgað með debitkortinu(það er ekki mynd á því), heldur varð ég að koma með vin/vinkonu með mér til að fá IDið en hins vegar gat ég alveg borgað í búðum með því að sína passan. Þetta "meikar" ekki alveg "sens" en ég þar sem ég vil ekki alltaf vera með passan þá fór ég með vinkonu minni í bankann og sótti um það. Reglur, reglur, reglur.
Jæja núna ætla ég að fara og gera fyrstu tilraun í að leigja DVD, það kemur svo í ljós hvernig það fer.

05 september 2004

Vika í Nordostpassagen 6

Núna er komin vika sem ég er búin að vera hérna í íbúðinni, sem er bara gott og blessað nema hvað ég er búin að vera með alveg þvílíkan maga verk í dag. Ég hélt á tímabili að maginn væri að sprynga. En ég er öll að skána.
Við fengum mjög áhuga vert verkefni í skólanum sem við eigum að skila á fimtudag. Þetta verkefni er í 3 liðum, fyrsti þá á maður að fara út í skóg, á gatnamót þar sem umferð er, vera í hljóðlátu herbergi og svo mátti velja um banka, strætóskiptistöð, pósthús eða eitthvað svoleið. Svo átti maður að vera í 10 min á hverjum stað og hluta á öll hljóð sem maður heyrði og taka eftir því hvernig manni liði við hin og þessi hljóð. Annar hlutinn átti maður að setja tappa í eyrað á sér og vera með hann í 6 tíma og taka eftir hvernig hljóðin eru, reyna að hafa samskiti við annað fólk, fara t.d. út í búð, ég endist ekki nema 3 tíma en þá var ég komin með höfðuverk vegna þrístings. Svo var þriðjihlutinn bara að lesa grein og svara spurningum.

Það var einn kennarinn með mjög leiðinlegt comment á fimmtudag, hún var eitthvað að tala um að þetta væri vandamál sem þyrfti að takast á við, útaf því hvað ég skil lítið. Og bekkurinn þarf að ræða málin hvort að þetta trufli hina vegna þess að ein stelpan er að þýða aðalatriðin yfir á ensku til að ég nái um hvað er verið að tala. Svo eigilega sagði hún að ég myndi ekki ná þessu, mér fannst hún mjög neikvæð. Ég var ekkert smá sár. Svo sagði ég stelpunum frá þessu og þeim fannst þetta bara fáránlegt af henni. Ein stelpan heyrði samræðurnar hún var bara "er ekki allt í lagi!!" Allir aðrir kennarar finnst þetta ekkert mál og bara mjög jákvæðir. Ég er ekkert smá pirruð út í þessa "kellingu"

Annars er lífið vara fínt hér í Gautaborg :)

01 september 2004

Skóli...

Núna er ég búin með 3 skóladaga og af þeim voru 2 og hálfur kynningar. Sem sagt helmingurinn í dag var fyrirlestur. Þetta gengur bara ágætlega. Ég er búin að kynnast fleiri stelpum, aðalega eftir daginn í gær. Hann byrjaði á því að ég labbaði í skólann eins og venjulega nema að það var ótrúlega mikil rigning, ímyndið ykkur MJÖG mikla rigningu(eins og hellt sé úr fötu) og labbið í því í 20 mín í jakka sem er ekki mjög vatnsheldur, og hver er útkoman? Jú gegnum blaut frá toppi til táar, og engar íkjur. Ég var að krókna, ég skalf í tímanum. Nærfötin mín voru blaut !!
Það endaði með því að ein stelpan lánaði mér bol svo minn gæti þornað.
Svo þurftum við að segja hver við værum og þá auðvitað komust allir að því að ég var frá Íslandi og skildi mest lítið af því sem sagt var. Svo var farið að vorkenna mér fyrir að skilja ekkert og vera köld og blaut. Upp frá því fékk ég lánaðan bolinn ;)
Þessi sama stelpa og lánaði mér bolinn, Marie, fór svo að þýða fyrir mig hvað kennarinn var að segja, sem kom sér mjög vel. Einnig var hún að þýða fyrir mig fyrirlesturinn í dag og útskírði einnig fyrir kennaranum hvað hún væri að gera. Þetta leit kannski illa út, sátum aftast og hún alltaf að hvísla einhverju að mér :/
En þetta var allt í lagi ;) Ég má meira að segja skila verkefni sem við eigum að gera á ensku :)
Svo var Eyjó, sá sem var í herbergjunum á undan mér að fara í dag svo ég er búin að vera að koma mér fyrir, það er mjög mikið hillu pláss en ég hef lítið til að setja í þær... Ég hlýt að geta reddað því ;) Núna sé ég svona hvað mig vantar.

Ef einhver veit um góða uppskrift af ágætis mat, fljótlegt og þæginlegt, endilega látið mig vita. Þetta er frekar einhæft hjá mér...

30 ágúst 2004

Fyrsti skóladagurinn

jáú...Þá er fyrsti skóladagurinn búinn. Ég get nú eiginlega sagt það að ég skildi mest lítið. Stundum vissi ég um hvað umræðuefnið var en ekki hvað var verið að segja um það tiltekna mál, en annars var þetta mest verið að segja okkur eitthvað um skólann og hvernig hlutirnir virka en við vorum ekkert að læra neitt sem tengist náminu, það byrjar á morgun :/
Ég kynntist þarna stelpu, sem heitir Helena, en hún labbaði upp að mér og spurði hvort ég væri frá Íslandi(á sænsku) svo þegar hún komst að því að ég skildi litla sænsku þá reyndi hún svona að segja mér eitthvað til. Annars þá er þetta mest stelpur, af 28 manna hópi þá eru 3-4 strákar. Og 3-4 konur um fertugt, en annars er þetta mest ungt fólk.
Ég vígði svo matreiðslubókina sem ég fékk í afmælisgjöf frá Ragnheiði og Karól. Rétturinn kom bara mjög vel út. Ég mæli með Hristist fyrir notkunn, alls ekki flókin.
Ég er búin að vera í þvílíku veseni að fá myndavélina mína til að tengjast tölvunni og Eyjó, gaurinn sem ég er að flytja inn í staðinn fyrir, er búin að vera að hjálpa mér en hann kann þó nokkuð á tölvur, en ekkert gekk. Svo datt mér í hug að nota kapalinn sem fylgdi tölvunni(sem er eiginlega eins og hinn sem ég var að nota) og þá gekk allt saman í sögu(Afhverju gerði ég þetta ekki strax? :/ ) En þá gæti ég farið að birta myndir á netinu :) Þetta er allt að koma!!

29 ágúst 2004

Nýtt heimili

Núna er ég loksins komin á staðinn þar sem ég verð í vetur. Á Nordostpassagen 6. Ég kom hér um hádegi, og fór og tékkaði á leiðinni upp í skóla, hún er ekki nema um svona 20 mín, svo er líka strætó sem ég gæti tekið en það tekur mig um 5 min að labba í hann, ég ætla að vera dugleg og labba í skólan á meðan veðrið er ekki mjög slæmt.
Ég fór svo út í búð áðan og verslaði smá inn, það getur verið svolíðið eftitt að ákveða hvað maður á að kaupa. En ég keypti þetta augljóa, mjólk og Kornflex, brauð, ost og skinku, vatn og djús. Svo þarf maður að fara að finna út hvað maður getur haft í kvöldmat :/ En þetta kemur allt saman.
Ég get ekki almennilega komið mér fyrir hérna í íbúðinni strax því að íslenski strákurinn var að leigja hér er ekki enn farinn út en hann er birjaður að pakka niður í kassa. Svo ég verð bara inni í vinnuherbergi hjá henni Eddu, en það er leigjandinn minn og meðleigjandi... En þetta á alltað vera komið í sitt horf 1.sept, en þá fer líka Eyjó(íslenski strákurinn) með dótið sitt í gám og flýgur heim.

27 ágúst 2004

Strætó

Jæja núna er ég búin að fara í strætó hér. Sem er í fyrsta skipti í tæp 4 ár sem ég fer í strætó. En ég mun fara að stunda þetta meira heldur en að ég hef gert. Þetta er ekki alveg eins og heima þar sem er bara borgað eitt gjald. Hér þarftu að borga mismikið eftir hvað þú ætlar langt, svo þetta gengur í raun út á hreinskilni, en ef þú borgar minna þá gætiru þurft að borga 5000kr ísl í sekt ef eftirlitið kemur. Ég fór og lét breyta heimilisfanginu mínu í dag, og konan sem tók við blaðinu blaðraði eitthvað á sænsku sem ég skildi ekki svo ég bað hana að tala ensku en það var víst ekki möguleiki fyrir hana svo ég komst aldrei að því hvað hún ætlaði að segja :/ Svo frá og með 1. sept verður heimilisfangið mitt: Nordostpassagen 6, 413 11 Göteborg

25 ágúst 2004

Komin til Svíþjóðar

Halló HallóLoksins er ég komin í netsamband til þess að skrifa hér inn á.Ég er komin til Gautaborgar og bý núna tímabundið hjá íslenskum hjónum sem búa hér rétt fyrir utan borgina í bæ sem heitir Pixbo. Svo frá og með 1. sept er ég komin með varanlega íbúð í um 20 mín göngufjarlægð frá skólanum.Þetta byrjaði ekki of vel hér í Svíaríki, en ég var í bókabúð á sunnudaginn, daginn eftir að ég kom, en þá var veskinu mínu stolið. Ég sá aldrei þjófinn en það var allt í einu horfið. En í því voru allir peningarnir mínir sem ég hafði með, debit og kredit kort, ökuskírteini og digital myndavél sem hafði verið keypt í fríhöfninni á leiðinni :/ En sem betur fer var síminn ekki í veskinu. En eins og er sagt "fall er fararheill", ég vona það.Ég fékk svo kennitölu á mánudaginn, og bankareikning. En ég gat ekki fengið ID-kort í bankanum fyrr en ég er búin að fá mér sænskan vin til að staðfesta hver ég er. Passinn dugir ekki. Regler är regler, eins og svíar segja :)Svo er ég búin að fá stundaskrá og á að byrja á mánudaginn kl. 13. Ég er einnig búin að fara í IKEA, sem er skilda þegar maður er í hér.Ég er ekki búin að læra á þetta stætókerfi, fyrir mér virðist það frekar flókið en ég hlýt að læra á það þegar ég byrja að nota það.Pabbi fór í morgun en hann er búinn að vera að hjálpa mér að gera það sem ég þurfti að gera, svo núna er ég ein eftir í Gautaborg og á margt eftir að læra.