31 október 2004

Heimsókn nr. 1

Jæja þá er fyrsta heimsókn frá Íslandi búin og mamma og Lilja eru komnar og farnar. Þær komu kl. 17 á miðvikudag og fóru áðan kl 13:25. Svo ég er aftur orðin ein.
Þetta var mjög skemmtileg heimsókn. Þegar þær komu fórum við út að borða með Marie vinkonu minni, en hún var að fara heim til foreldra sinna yfir helgina svo þetta var eina tækifærið til að hitta hana. En svo á fimmtudaginn var notaður í að rölta um á milli búða, sem var ekki leiðinlegt :) enda eignaðist ég buxur. Svo var eiginlega verslað líka á föstudaginn en ekki eins mikið. Við fórum svo út að borða á fínan veitinga stað á 23ju hæð í einu stærsta hóteli norðulandanna en það er með um 1000 herbergi...! Við fórum með íslenskum hjónum sem mamma þekkir hér, Hanna og Helgi, ekkert smá góður matur. Svo eftir að við vorum komin heim fórum við Lilja í bæinn til að djamma smá, ætluðum ekki að vera lengi því planið var að fara líka út á laugardag en við komum heim kl hálf fjögur, kannski ekki svo slæmt. Við rákumst á einn mjög fínan stað eftir smá rölt, það var reyndar ekki mikið að fólki þar en við komumst svo að því seinna að fólk fer aðalega út á laugardögum ekki föstudögum. Hér borgar maður inn á flesta staði sem eru með almennilegri tónlist. Svo á laugardaginn(í gær) fórum við á Norrænt listasafn hér smá norður af Gautaborg. Hanna frá kvöldinu áður vildi endilega taka okkur þanngað. Ég get ekki sagt annað en að þetta hafi verið spes og kannski einkennilegt. Svo fórum við í heimsókn til afabróður míns sem er á elliheimili en hann er með Alzimer og man ekki neitt en samt svolítið fyndinn karkter. Svo virðist hann tala bara íslensku við húkkurnar svo þær skilja hann ekki. Svo fórum við Lilja aftur niður í bæ í gærkvöldi enda ekki annað hægt. Og jú ég get alveg viður kennt það að það var mikill munur á fjölda fólks í bænum. Sem sagt Svíar djamma á laugardögum, og mikið af stöðum erum með 25-27 ára aldurstakmark og ekki láta þér detta í hug um að þú gætir litið út fyrir að vera eldri en þú ert, þeir tékka skilríki hjá öllum. Við fórum á fínan stað þar sem voru þrjú dansgólf með mismunandi tegundir af tónlist og alls ekki troðið þarna inni enda stór staður. Maður fer þanngað aftur :) Í þetta skipti komum við heim kl 5 en samt eigilega kl 4 þar sem tíminn breyttist í nótt og við græddum einn tíma, svo núna er ég einum tíma á undan Íslandi í stað tveggja. Já og svo fóru þær mamma og Lilja áðan, ég fór auðvitað með þeim út á lestarstöð en þá beið þeirra 4 tíma lestarferð til Köben. Jæja ætli þetta sé ekki orðið gott í bili ég ætla svo að setja inn myndir eftir smá stund en það ætti að verða í dag :)

25 október 2004

Comment

Jæja nú fer að styttast í að ég fái heimsókn frá Íslandi, eins og ég var búin að segja áður þá koma mamma og Lilja í heimsókn á miðvikudaginn og verða fram á sunnudag. Þetta á örugglega eftir að vera gaman, ég efast ekki um það. ´
Í næstu viku munum við byrja í sálfræði, en þá munum við vera með Iðjuþjálfum í tíma, held ég ef ég er með rétta þýðingu: Arbetsterapeut. Endilega látið mig vita ef þetta er eitthvað vitlaust. Já, ég er núna komin með "comment"akerfi núna sem ekki þarf að skrá sig inn á. Ég var búin að fá kvartanir yfir því en þetta er komið í lag.
Í gærkvöldi þá var ég í matarboði hjá íslendingunum sem ég bjó hjá fyrstu vikuna. Það var bara mjög fínt. Svo í morgun þegar ég vaknaði var þessi líka hrikalega rigning og með þrumum og eldingum, og fyrir þá sem ekki vita þá finnst mér ekkert gaman af þrumum og eldingum. Jújú eldingarnar eru flottar úr mikilli fjarlægt, en þegar þær eru nálægt þá finnst mér ekkert gaman. Ég er líka viss um að einhverjir hafa heyrt sögur um mig og þurmur&eldingar frá því að ég var í USA.
Ég fór í ræktina í gær með Marie vinkonu minni, við fórum í svona step up tíma. Þetta gekk svonaaaaa. Ég hef aldrei gert þetta af neinu ráði og var alveg rugluð í tímanum en samt gaman. Í dag er ég með einhverjar harðsperrur en samt alls ekki eins og ég bjóst við. Ég ætla svo að fara aftur í dag ef það stangast ekki á við sænskutímann minn.

16 október 2004

Litli íslenski heimurinn

Já heimurinn er lítill. Í gær var afmæli hér hjá leigjandanum mínum henni Eddu en hún var að halda upp á 30 afmæli elsta sonar sína, og hún bauð mér að vera. Einn góður kostur að búa hjá íslendingi er að það er mjög líklegt að hún þekki aðra íslendinga, svo ég gat talað við nokkra. Ein kona(ísl sem heitir Kristín) sem var hér í gær er vinkona mömmu Lísu vinkonu minnar, svo er mamma Lísu að vinna hjá tannlækninum mínum. En ég kynntist Lísu samt ekkert í gegnum það. Svo þekkir veit Kristín einnig hver bróðir afa míns var. Við komumst reyndar ekki að neinu fleiru sem við gátum tengt en mér fannst þetta sniðugt.
Annars þá var um 30 manns hér í gær og mér tókst að babbla einhver svör við þeim spurningum sem ég fékk, þó að flest hafi svörin verið já og nei og þess háttar, þá tókst mér nú samt að búa til heilar setningar en þær innihéldu stundum(ekki alltaf) ensk orð. En þetta tókst :)

13 október 2004

Merkilegur hlutur

Einn merkilegur hlutur gerðist áðan. Ég settist fyrir framan sjónvarpið, nánar til tekið heima hjá vinkonu minni, og horfði á fótbolta. Í mínum heimi er þetta mjög merkilegt því að ég tel þetta vera í fyrsta skipti sem ég horfi viljandi á fótbolta. Ég gat reyndar varla sleppt því þar sem Ísland var að spila á móti Svíum og vinkona mín hefur mjög mikinn áhuga á flestum íþróttum. Annars get ég lítið tjáð mig um frammistöðu leikmannanna í leiknum nema að mér fannst samlandar mínir heldur grófir. Og fáránlegt að við skildum hafa tapað 4-1, 3ja marka munur. En hvað veit ég um fótbolta, jú nánast ekkert :) Það er bara merkilegt að ég sé að tala um þetta

En svo var ég líka að fá staðfest í dag að mamma og Lilja(kærasta bróður míns fyrir þá sem ekki vita) eru að koma hingað eftir 2 vikur... VÁ!!! hvað ég hlakka til að fá heimsókn :)

11 október 2004

Haust í Gautaborg

Jæja ég hef ekki skrifað hér lengi og kannski engin bein afsökun með það. Það er farið að kólna all svakalega hér í Gautaborg en samt er ekki rok eða rigning svo þetta er enn ágætt. Ég er búin að vera lítið í skólanum undan farið þar sem ég er í raun á milli áfanga en hér eru áfangarnir 5 vikur hver, núna er ég byrjuð í Anatómíu eða líffærafræði.
Á föstudaginn fór ég í stærsta IKEA í heimi. En þetta IKEA opnaði fyrr í sept. Mér tókst auðvitað að kaupa nokkra hluti enda var það ætlunin, en ég var "alveg í sjokki" yfir því hvað þetta var ódýrt. 8 tréherðastré, 8 trébuxna herðatré, 2 30x40 smellurammar, 1 venjulegur rammi, 2 vasar(fyrir eitt blóm)og dallur fyrir penna allt þetta fyrir tæpar 1900kr ísl. Svo fór ég í aðra búð á laugardag þar sem var rýmingarsala og ég fékk garínur fyrir tæpar 1000kr ísl sem er bara frábært. Svo það er allt orðið heimilislegra hér hjá mér.

03 október 2004

Hálfgert rán..

Ég er búin að komast að því að símakostnaður er algjört rán hér í Svíþjóð. Hugsið ykkur að ef þið eruð að hringja innan fyrirtækis á daginn( milli 7 og 19) þá er gjaldið 4,85kr sek(47kr ísl). Þetta er rugl... En þeir eru hinns vegar mun skárri á kvöldin og um helgar en þá er gjaldið ekki nema 0,37kr sek(3.6kr ísl). Svo eru öll SMS 1,2kr sek(11.7kr ísl). MMS er síðan svo dýrt að manni dettur ekki einu sinni í hug að senda svoleiðis. Og svo auðvitað þarf maður að borga fyrir að hlusta á talhólfið sitt. Það er ódýrara fyrir þá sem eru með Frelsi á íslandi að hringja í mig heldur en fyrir mig að hringja innan fyrirtækis á daginn, sem er fáránlegt. Þetta er allt mjög svipað hjá fyrirtækjunum... nema 2 fyrirtæki eru með þetta aðeins öðruvísi. Þá er mínútugjaldið alltaf það sama og SMS eru ódýrari en þá er bara hægt að fylla á á netinu. Ég á 2 númer og annað þeirra er svoleiðis. Bráðum verð ég með 2 síma og 2 númer, til að hringja sem ódýrast. Mér tókst nefnilega að klára 100kr sek(976,5kr ísl)á 9 dögum sem er klikkun að mínu mati því að ég hringdi ekki mikið.
Ég fór aðeins á djammið á föstudaginn. Ég get nú ekki dagt að þetta sé eins og í henni Reykjavík. En þetta var nú samt bara fínt. Maður þarf að borga til að komast á dansgólfið(yfirleitt á efrihæð) en ef maður er bara á barnum(niðri) þá þarf maður ekki að borga. Svo það er ekkert svona rölt hér í borg. Ég er nú ekki frá því að mig fari að langa að rölta á milli staða i miðborg rvk.