08 maí 2006

Og enn skín blessuð sólin..

Ég er ekki alveg vön því að hafa sama veðrið í marga daga í röð, núna er búið að vera sól, heiðskírt og 20-25°C í 4 daga og verður það líklegast á morgun líka. Auðvitað á maður ekki að vera að kvarta yfir veðrinu, en það má alveg koma svona einn og einn skýdagur inn á milli með 15°C bara svona til þess að breyta til.
Þetta veður er sérstaklega erfitt þegar maður ætti að vera duglegur og sitja inni og læra, lesa greinar og skrifa 2 verkefni þar sem það er því miður ennþá mánuður eftir af skólanum. Ég var að tala um þetta veðurbreytingarleysi við Marie í dag og hún sagði að ég þyrfti bara að læra að það sé hægt að sitja inni og læra þó að það sé gott veður úti, ég held að ég velji breytileikan frekar :þ

Annars þá vorum við(hálfur bekkurinn) í heimsókn í Kannebäcksskolan í dag, en það er grunnskóli fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta nemendur. Þetta var alveg mjög skemmtilegt. Þar er heyrnarlausum og heyrnarskertum skipt í tvennt, þeas þeir sem nota táknmál eru í sér bekk og þeir sem nota talmál eru sér, allir bekkirnir eru ca 5-10 nemendur og 2 kennarar. Tæknin er alveg þvílík í skólanum en fyrir þá nemendur sem nota talmál er kennarinn með hljóðnema sem sendir í gegnum FM-kerfi eða T-spóli-kerfi(fyrir þá sem þekkja), og svo er annar sem nemendurnir nota, þannig að vinnu umhverfið er mjög gott.
Síðan fengum við að fara inn í tónlistarherbergi, þar sem gólfið er á púðum og undir gólfinu eru 96 hátalarar. Svo þegar kveikt er á tónlist eða bara einhverju örður þá titrar gólfið eins og það sé mjög sterkur bassi, þó að tónlistinn sjálf hafi ekki mikinn bassa. En þetta herbergi er notað til að læra að þekkja takt ofl. Við settumst nokkrar í gólfið og það var eiginlega svolítið óþæginleg tilfinning.
Núna langar mig bara að vita hvernig þetta er heima til að geta borið saman og kannski komið með einhverjar tillögur :þ Ég get varla beðið eftir að klára þetta nám og fara að vinna... en þar sem ég er eiginlega búin að ákveða að taka eitt aukaár þá verð ég að bíða aðeins lengur. En ég fæ nú aðeins að fikta í þessu í sumar :D