11 nóvember 2005

Föstudagspælingar

Ég og Alla fórum að tala um stráka á tímabili í rútunni á leið til og frá Köben, samt ótrúlega lítið. En það kom upp smá pæling... sem er að í rauninni höfum við(sem íslendingar) ekki úr of mörgum strákum að velja, sérstaklega ekki ef að við gerum kröfur um aldur. Svo ég ákvað að kanna þetta aðeins betur, fór inn á vef hagstofunnar þar sem maður getur skoðað tölur um mannfjölda á ýmsan hátt.
Svo auðvitað miðaði ég við mínar eigin aldurs(og kyn) kröfur sem er karlmaður fæddur '82 til '79 og fékk það út að ég hef um 9091 karlmann að velja. En inn í þetta er ekki tekið að einhver hluti þessara karlmanna er nú þegar í sambandi og kannski giftir(ónákvæm tala giftinga karlmanna fyrir þetta aldursbil er 120) og að hluti þeirra býr kannski í öðru landi sem ég hef engin samskipti við.
Svo er það auðvitað líka þannig að maður heillast ekki af öllum þessum tæplega 9000 karlmönnum, sem maður hefur möguleika á. Og ofan á það þá, af þessum sem maður heillast af þá er hluti af þeim þar sem tilfinningarnar eru ekki gagnkvæmar þannig að það gegnur heldur ekki upp. Hvað ætli það séu eiginlega margir karlmenn?
Ég býst ekki alveg við neitt sérstaklega hárri tölu.

Niðurstaða: Lífið er erfitt og karlmenn flóknir.

En ég segi það kannski ekki að ég geti ekki minnkað kröfurnar aðeins, fært aldursbilið aðeins upp eða niður ef sú staða kæmi upp en ég sé ekki tilgang í því eins og staðan er í dag.